Home » 2008

ÍSLENSK MYNDLIST – HUNDRAÐ ÁR Í HNOTSKURN

Næstkomandi laugardag 12. janúar 2008 kl. 16.00 verður opnuð sýningin Íslensk myndlist – hundrað ár í hnotskurn.

Sýningin er unnin í samvinnu við Listasafn Íslands og spannar tímabilið 1902-2004 í íslenskri myndlist. Á sýningunni eru 21 verk úr safneign Listasafns Íslands bæði olíumálverk, verk unnin á pappír og þrívíð verk. Verkin á sýningunni endurspegla ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn né þróun þeirra. Þannig er reynt að gefa mynd af þróun myndlistar í íslensku samfélagi á 20. öld og auka skilning á samtímalist.

Markmið verkefnisins er að fá ungt fólk, aðallega nemendur efri bekkja grunnskóla og framhaldsskóla, til að átta sig á samhengi hugmynda í myndlist nútíðar og fortíðar og samhengi myndlistar og samfélags. Með sýningunni hefur verið unnið fræðsluefni þannig að skólahópar sem koma á sýninguna fá upplýsingar og verkefni til að vinna að áður en þeir koma í Skaftfell, þeir fá leiðsögn um sýninguna og kynningu á íslenskri myndlist og einnig fá þeir verkefni til að taka með sér í skólann og ljúka þar. Með þessu móti er sýningunni ætlað að vera hluti af myndlistarkennslu skólanna á Austurlandi.

Eins og fyrr sagði koma verkin á sýningunni frá Listasafni Íslands sem er höfuðsafn á sviði myndlistar. Með þessu verkefni er ætlunin að koma til móts við nemendur í fjarlægum byggðarlögum svo flestir fái tækifæri til að njóta íslenskrar myndlistar og fræðast um þann sameiginlega menningararf sem Listasafn Íslands varðveitir.

Sýningarnefnd skipa: Dagný Heiðdal, Rakel Pétursdóttir, Ólafur Ingi Jónsson, Halldór Björn Runólfsson fyrir Listasafn Íslands. – Daníel Björnsson, Guðmundur Oddur Magnússon, Þórunn Eymundardóttir fyrir Skaftfell.