Sýningartillagan K a p a l l hlutskörpust

Fyrir sumarsýningu Skaftfells árið 2018 var tekið upp á þeirri nýbreytni að auglýsa eftir tillögum með það að leiðarljósi til að bjóða nýjum aðilum til samtals. Alls bárust rúmlega 30 umsóknir og valdi fagráð miðstöðvarinnar gaumgæfilega tillöguna K a p a l l eftir teymið Aðalheiði Valgeirsdóttur, myndlistarmann, listfræðing og sýningarstjóra og Aldísi Arnardóttur, listfræðing og sýningarstjóra.

Á sýningunni verður varpað ljósi á þær miklu breytingar og framfarir sem samskiptatæknin hefur haft í för með sér. Offlæði upplýsinga og sífellt hraðari samskipti nútímans vekja upp hugleiðingu um kapalinn, – strenginn sem símasamskiptin fóru fyrst um á Íslandi fyrir rúmri öld og kom á land á Seyðisfirði. Til sýnis verða ný og eldri verk eftir fimm íslenska listamenn: Sigurð Guðjónsson,Tuma Magnússon, Unnar Örn Auðarson, Þórdísi Aðalsteinsdóttur og Þórdísi Jóhannesdóttur.

Sýningin verður unnin í samstarfi við Tækniminjasafn Austurlands sem er langtíma samstarfsaðili miðstöðvarinnar. Safnið leggur áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag og eru þar til sýnis m.a. munir, minjar, hús, myndir og verkferlar sem veita innsýn í nútímavæðingu þjóðarinnar. Í safninu er prentaðstaða, vélsmiðja, málmbræðsla og sérstök deild tileinkuð sögu símans á Íslandi.

Tillaga Aðalheiðar og Aldísar snertir á mörgum flötum sem hafa verið til tals innanhúss í Skaftfelli. Samtímamyndlist er í fyrirrúmi og inntak sýningarinnar tengist bæði sögu bæjarins og beintengingu við meginlandið. Auk þess á innanbæjar listamaður verk á sýningu, ásamt listamönnum sem hafa ekki áður sýnt í Skaftfelli, einnig verða listaverk unnin á staðnum í samstarfi við Tækniminjasafnið.

Nýlega komu sýningarstjórarnir, ásamt þremur listamönnum sýningarinnar, í rannsóknarferð til Seyðisfjarðar þar sem meðal annars upprunalegi kapallinn var skoðaður á Tækniminjasafninu.

K a p a l l opnar laugardaginn 16. júni og þá verður jafnframt haldið upp á 20 ára starfsafmæli Skaftfells. Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Myndlistarsjóði.

Aðalheiður Valgeirsdóttir er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982 og hefur lokið BA og MA prófi í listfræði frá Háskóla Íslands.  Aðalheiður hefur haldið erindi um myndlist og kennt listfræði í diplómanámi í málaralist í Myndlistaskólanum í Reykjavík auk þess að kenna málun við sama skóla. Hún var sýningarstjóri sýningarinnar Heimkynni/Sigrid Valtingojer í Listasafni Árnesinga 2017. Árið 2016 var hún ásamt Aldísi Arnardóttur listfræðingi sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög, Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir í Listasafni Árnesinga.

Aldís Arnardóttir er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012. Aldís starfar sem myndlistarrýnir Morgunblaðsins og kennir listasögu við Sjónlistadeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún er sýningarstjóri sýningarinnar Líðandin – la durée á verkum Kjarvals sem stendur yfir á Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist og skrifað sýningartexta fyrir listamenn og gallerí. Aldís hefur einnig haldið fyrirlestra um myndlist og hlotið styrki til rannsóknarstarfa. Árið 2016 var hún ásamt Aðalheiði Valgeirsdóttur listfræðingi og myndlistarmanni sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög, Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir í Listasafni Árnesinga.

Aðalheiður og Aldís voru einnig sýningarstjórar sýningarinnar Heimurinn án okkar í Hafnarborg 2015, en tillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar.