Home » 2009

Dúett – Sonnettusveigur

Bókin Dúett kom út fyrir tæpu ári síðan og er samstarfsverkefni Lóu og Sigga. Hún málar myndirnar og hann yrkir ljóðin. Myndirnar eru unnar með blandaðri tækni og flestar málaðar á árunum 2007-2008. Sonnettusveigurinn var fimmtán ár í smíðum, með hléum. Sýningin hefur áður verið opnuð á nokkrum stöðum á landinu svo sem í Gallerí Bláskjá á Egilsstöðum, á jafnréttisráðstefnu í Keili á Suðurnesjum og nú síðast við útkomu bókarinnar á listasumri í Deiglunni á Akureyri 2008.

Dúett rekur unaðsstund tveggja manneskja í sonnettusveig.

Sonnettusveigur er vafinn úr fjórtán sonnettum.  Sonnetta eins og hér er notuð,

er fjórtán línur þar sem hver lína er ellefu atkvæði.  Hver lokalína er síðan notuð

sem upphafslína næstu sonnettu og svo koll af kolli þar til fjórtán lokalínur eru

komnar.  Þá eru þær allar settar saman í eina sonnettu sem dregur saman merkingu

alls sveigsins.  Þannig myndast hringur þar sem upphaf og endir renna saman eins

og unaðsstundum er gjarnan tamt.

Sigurður mun lesa upp úr bókinni við opnunina og hljómsveitin Dætur Satans leikur nokkur frumsamin lög. Þess má geta að aðeins örfá eintök eru eftir af bókinni en hún verður til sýnis á opnuninni.

Sigurður Ingólfsson gaf út sína fyrstu ljóðabók, Húm, þegar hann var tvítugur og hefur unnið að ritstörfum síðan í hjáverkum.  Hann hefur gefið út fimm ljóðabækur, þýtt óperuna Helena fagra fyrir Leikhúskórinn á Akureyri, skrifað leikgerð að Lísu í Undralandi fyrir leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum og vinnur nú að uppsetningu og leikstjórn á barnaleikritinu Elvis – leiðin heim eftir hann sjálfan, fyrir Leikfélag Fljótsdalshéraðs.

Ólöf Björk Bragadóttir – Lóa, stundaði nám í myndlist í École Supérieure des Beaux Arts í Montpellier frá 1994-2000 og lauk þaðan Mastersgráðu. Hún hefur einnig stundað nám í kvikmyndagerð í Frakklandi og lauk kennaragráðu í kennslufræði myndlistar árið 2005 frá HA. Áður hafði hún lokið BA prófi í frönsku og fjölmiðlafræði frá HÍ. Hún hefur kennt listgreinar við ME frá því haustið 2000 en auk þess hefur hún starfað við fjölmiðlun og leiðsögn.

Lóa hefur haldið fjölmargar sýningar bæði hérlendis og erlendis og tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum verkefnum tengdum sjónlistum bæði sem myndlistarmaður og listgreinakennari; svo sem í Frakklandi, Danmörku, Finnlandi, Spáni, Portúgal, Kýpur, ítalíu, Noregi og Írlandi.

Hún er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna SÍM og í félagi íslenskra myndlistarkennara, FÍMK. Sumarið 2008 var Lóa valin bæjarlistamaður Fljótsdalshéraðs á Austurlandi.