Home » 2013

Found

13.09.13-17.09.13
Bókabúðin-verkefnarými

Verkið Found eftir Paulu Prats er myndröð sem byggist upp á myndum sem eru tvær myndir í einni; skyndimyndir frá sjöunda áratugnum sem fundust á flóamarkaði í Kanada, og myndir, teknar af henni sjálfri í dag.

Oft þarf að stilla hlutum upp með einhverju öðru til að það öðlist gildi. Í Found sjáum við týndar og hversdagslegar myndir, sem segja má að séu ekki metnar að verðleikum, í nýju ljósi með því að tengja þær við aðrar. Samt sem áður er þetta ljósmynd, frá fjarlægum tíma og með annari tækni og ætlun.  Séð í þessu samhengi, verður til sjónræn skírskotun og möguleiki skapast til að tengja við annað. Found er rými þar sem mynd hittir fyrir bergmál sitt – 50 árum síðar, fölsk endurupplifun.

Í verkefninu er óendanlegu magni hversdagsmynda hampað; þeim fundnu, þeim týndu, myndunum sem enginn mun hafa tíma til að skoða, þeim venjulegu og þeim upphöfnu. Myndunum sem fylgir tómleiki gleymdra minninga, þeim ónothæfu, slæmu, og að síðustu, athöfninni að skoða og ljósmynduninni sjálfri.

Paula Prats (fædd 1986) er með BA í myndlist frá San Carlos listaháskólanum í  Valencia á Spáni. Í framhaldi af því nam hún ljósmyndun við háskólana Emily Carr Art+Design í Vancouver, Kanada og við Middlesex háskólann í London. Hún hefur sýnt bæði á Spáni og víðar; Bretlandi, Kanada og Mexíkó.