Home » 2010

GEIRI – Líf og list Ásgeirs Emilssonar

Það er okkur sannur heiður að kynna sýningu á verkum alþýðulistamannsins Ásgeirs Emilssonar.

Alþýðulistamaðurinn Ásgeir Jón Emilsson var fæddur 1931 að Hátúni við Seyðisfjörð. Geiri, eins og hann var ávallt kallaður, var litríkur karakter og listamaður af Guðs náð. Hann hafði óstöðvandi sköpunarþörf og verk hans bera merki um natni og listfengi. Þrívíð verk úr dósum, rammar úr sígarettupökkum, málverk með síendurteknum mótífum og mikill fjöldi ljósmynda, sem bera merki um óvenjulegt sjónarhorn listamannsins, eru burðarásinn í ævistarfi Geira. Sýningin í Skaftfelli varpar ljósi á óvenjulegan listamann og opnar gestum glugga inn í einstakan hugarheim Ásgeirs Emilssonar.

Í tilefni sýningarinnar hefur einnig verið gefið út fallegt rit um Geira, líf hans og list. Bókin verður til sölu í safnverslun Skaftfells frá og með opnunardegi sýningarinnar. Bókin verður seld í forsölu á lægra verði fram til föstudagsins 14. maí. Árný Bergsdóttir tekur á móti pöntunum í síma 866 1209 eða með tölvupósti á [email protected].

Sama dag verður opið hús í Geirahúsi frá 15:00 – 18:00.

Sýningin stendur til 30. júní.
Opið alla daga frá 12:00 – 22:00 og aðgangur ókeypis.

Heimsóknir í Geirahús þarf að panta með fyrirvara á skrifstofu Skaftfells í s. 472 1632 eða með tölvupósti á [email protected]. Hámarksstærð hópa er 5 manns og aðgangseyrir er 500 kr. á hvern gest.