Hvít sól

Hvít sól

3. nóv. 2018 - 20. jan 2019 IYFAC

Myndlistarhópurinn IYFAC opnar síðustu sýninguna í Skaftfelli árið 2018. Hópurinn mun koma í rannsóknarferð fyrr á árinu, í júlí, og setja upp tímabundið verk í tengslum við efnistök sýningarinnar á LungA-hátíðina á Seyðisfirði. Sýningin Hvít sól opnar nokkrum mánuðum seinna í sýningarsal Skaftfells. Þar gefur að líta innsetningu þar sem snertifletir hins efnislega og óefnislega verða kannaðir. Einnig verður litið til sögunnar og hugað að innreið nútímans í byrjun 20. aldar í formi raflýsingar, fjarskiptatækni og ljósmyndatækni, til að endurskapa aðferðir til tímatals og skrásetningar með aðstoð ósnertanlegra afla eins og sólarinnar.

Um listamennina

IYFAC hefur unnið að tveimur sýningum á síðustu árum. Sú fyrri var sýningin Ástarsameindir í SÍM salnum við Hafnarstræti sem var hluti af Vetrarhátíð 2016. Í haust sýndi hópurinn í Gallerí Gróttu sýninguna Ég sagði það áður en þú gast sagt það. Tíminn var sterkur þráður í þeirri sýningu, og þá sérstaklega tími konunnar. Hópurinn vill halda áfram að rannsaka margræðu plön tímans.

Halla Birgisdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún er útskrifuð frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur síðan þá tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um landið. Halla notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum síðan sem innsetningar, bókverk, veggteikningar, textíl-teikningar og kvik-teikningar. Hún kallar sig myndskáld. www.hallabirgisdottir.org

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er sviðshöfundur. Hún lauk BA-námi úr Listaháskóla Íslands árið 2011 og MA-námi úr Háskóla Íslands í ritlist. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum innan leikhúss og myndlistar, samið, sett upp, tekið þátt í fjölda gjörninga, sýninga og unnið innsetningar bæði á Íslandi og erlendis. www.rahaharpa.com

Ragnheiður Maísól Sturludóttir lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í mörgum samsýningum síðan. Hún er einnig meðlimur í Sirkus Íslands og Reykjavík Kabarett. Hún vinnur á mörkum myndlistar og sviðslistar og fjalla verkin hennar um töfrana í hversdeginum og mannlegri hegðun. www.behance.net/maisol

Sigrún Hlín Sigurðardóttir er myndlistarkona og hefur unnið með bæði textíl og texta í verkum sínum, meðal annars í innsetningum, leikhúsi og útvarpi. Hún lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands og í íslensku frá Háskóla Íslands og lagði þar að auki stund á nám í textílhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík.