/var/www/vhosts/skaftfell.is/httpdocs/wordpress/wp content/uploads/2018/03/sg image 72

K a p a l l

16. jún - 2. sept, 20108. Sigurður Guðjónsson,Tumi Magnússon, Unnar Örn Auðarson, Þórdís Aðalsteinsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir.

Sumarsýning Skaftfells ber heitið K a p a l l og verður jafnframt afmælisfögnuður miðstöðvarinnar sem heldur upp á 20 ára starfsafmæli á þessu ári.

Á sýningunni verður varpað ljósi á þær miklu breytingar og framfarir sem samskiptatæknin hefur haft í för með sér. Offlæði upplýsinga og sífellt hraðari samskipti nútímans vekja upp hugleiðingu um kapalinn, – strenginn sem símasamskiptin fóru fyrst um á Íslandi fyrir rúmri öld og kom á land á Seyðisfirði.

Til sýnis verða ný og eldri verk eftir fimm íslenska listamenn: Sigurð Guðjónsson,Tuma Magnússon, Unnar Örn Auðarson, Þórdísi Aðalsteinsdóttur og Þórdísi Jóhannesdóttur. Sýningarstjórar Kapals eru Aðalheiður Valgeirsdóttur og Aldís Arnardóttur. Sýningin er unnin í nánu samstarfi við Tækniminjasafn Austurlands.

Um listamennina

Sigurður Guðjónsson (1975) stundaði nám í Billedskolen í Kaupmannahöfn. Hann lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2004 og stundaði framhaldsnám í Akademie der Bildenden Kunste í Vínarborg. Hann vinnur vídeóverk sem byggja á rythma og endurtekningu. Með náttúruhljóðum og hlutum, vélum og gömlum tækjum dregur hann fram marglaga merkingu í verkum sínum. Nánari upplýsingar: http://www.sigurdurgudjonsson.net/

Tumi Magnússon (1957) stundaði nám í Myndlista-og handíðaskóla Íslands og í Academie voor Beeldende Kunst í Hollandi. Hann hefur unnið með ýmsa miðla á ferli sínum og reynir garnan á þanþol þeirra í verkunum. Tumi var prófessor við Listaháskóla Íslands 1999-2005 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 2005-2011. Nánari upplýsingar: http://testsida.tumimagnusson.com/

Unnar Örn Auðarson (1974) lauk MA námi frá Listaháskólanum í Malmö 2003, og BA námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1999. Verk Unnars eru unnin í ýmsa miðla og hafa gjarnan sögulega skírskotun. Fundið efni s.s. ljósmyndir, kvikmyndir og texti mynda heild þar sem gagnrýni á samtímann er opinberuð. Nánari upplýsingar: http://www.unnarorn.net/

Þórdís Aðalsteinsdóttir (1975) lauk MFA námi frá School of Visual Arts í New York og BA námi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1999. Í málverkum sínum vinnur hún með hversdagsleika mannsins á draumkenndan og oft ögrandi hátt. Manneskjur og dýr eru sýnd í aðstæðum sem eru í senn kunnuglegar og framandi. Nánari upplýsingar: http://www.stuxgallery.com/artists/thordis-adalsteinsdottir/biography

Þórdís Jóhannesdóttir (1979) lauk BA prófi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2007 og lauk kennsluréttindanámi 2009. Hún lauk MA námi frá Listaháskóla Íslands 2016. Í myndlist sinni hefur Þórdís aðallega fengist við ljósmyndun þar sem hún kannar nýja fleti á miðlinum. Hún vinnur einnig undir merkjum Hugsteypunnar ásamt Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur. Nánari upplýsingar: https://www.thordisj.com/

Um sýningarstjórana

Aðalheiður Valgeirsdóttir (1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982 og hefur lokið BA og MA prófi í listfræði frá Háskóla Íslands. Í fyrstu vann Aðalheiður aðallega grafíkverk en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni. Hún hefur haldið á 3. tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Aðalheiður hefur haldið erindi um myndlist og kennt listfræði í diplómanámi í málaralist í Myndlistaskólanum í Reykjavík auk þess að kenna málun við sama skóla. Hún var sýningarstjóri sýningarinnar Heimkynni/Sigrid Valtingojer í Listasafni Árnesinga 2017. Árið 2016 var hún ásamt Aldísi Arnardóttur listfræðingi sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög, Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir í Listasafni Árnesinga. Þær voru einnig sýningarstjórar sýningarinnar Heimurinn án okkar í Hafnarborg 2015, en tillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar.

Aldís Arnardóttir (f. 1970) er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012. Aldís starfar sem myndlistarrýnir Morgunblaðsins og kennir listasögu við Sjónlistadeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún er sýningarstjóri sýningarinnar Líðandin – la durée á verkum Kjarvals sem opnaði á Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum í janúar. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist, m.a. vegna útgáfu bókar um Eirík Smith á vegum Hafnarborgar árið 2015 og skrifað sýningartexta fyrir listamenn og gallerí. Aldís hefur einnig haldið fyrirlestra um myndlist og hlotið styrki til rannsóknarstarfa. Árið 2016 var hún ásamt Aðalheiði Valgeirsdóttur listfræðingi og myndlistarmanni sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög, Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir í Listasafni Árnesinga. Þær voru einnig sýningarstjórar sýningarinnar Heimurinn án okkar í Hafnarborg 2015, en tillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar.

Myndlistarsjodur