Skapandi upplestur með Atlas Ódysseifs

Mánudaginn 25. febrúar kl. 19:30-21:00, Herðubreið. 

Boðið verður upp á skapandi upplestur listamannanna Kęstutis Montvidas (LT) og Jūra Bardauskaité (LT) sem unnu nýverið saman að verkefninu Atlas Ódysseifs og er innblásið af ljóði Hómers og heillandi erkitýpunni Ódysseifi – hinum víðförla manni. Finna má sameiginlegan þráð með verkefninu og þema Ódysseifskviðu þar sem eyjur eru aðalaðdráttaraflið.

Hinn reikandi Ódysseifur mun leiða okkur í gegnum tvírætt samtal um goðsögu. Atlas Ódysseifs mun segja frá flóknu ferðalagi listamannanna við uppgötvun þeirra á aðdráttarafli eyjunnar. Þetta er opið samtal þar sem leikið er með viðtökur hetjuljóða og býður upp á túlkun á viðfangsefninu sem teygir sig í allar áttir. 

Samtalið fer fram á ensku. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Kęstutis Montvidas og Jūra Bardauskaité eru listamenn frá Litháen sem ferðast um þessar mundir á milli gestavinnustofa í tengslum við eyjarannsóknir sínar. Þau hafa dvalið í Skaftfelli í janúar og febrúar. Dvöl þeirra er styrkt af Nordic Baltic Mobility Programme.