Home » 2002

Tímans rás

Myndir af fossum sem eru byggðar á gömlum ljósmyndum, sumum allt að 100 ára gömlum.

Í margar aldir hefur vatnshugtakið verið nátengt tímahugtakinu. – Vatn sem rennur í það óendanlega, líkt og tíminn, og þannig verða rásir tímans til.

Listaverkin byggja á gömlum ljósmyndum eftir óþekkta ljósmyndara. Þær sýna íslenska fossa. Elstu myndirnar eru meira en aldargamlar.
Hver ljósmyndari sér landið sínum augum, og ljósmyndirnar verða persónuleg túlkun þeirra á þeim áhrifum sem viðfangsefnið veitir þeim, þetta kemur kanski skírast fram í þeim myndum sem hafa verið handlitaðar.

Í framsetningu listaverksins virðir listamaðurinn fullkomlega túlkun upprunalegu ljósmyndaranna. Verk hennar er minnisvarði um hver áhrif fossarnir höfðu á þá hvern og einn, á hverjum tíma. Ljósmyndirnar sýna að ljósmyndarar í upphafi síðustu aldar voru í sterkum tengslum við landið og náttúruna.
Sumir fossanna í verkunum hafa breyst, eða eru ekki lengur til.

Rúrí hefur lengi safnað gömlum myndum af íslenskum fossum, en slíkar myndir eru ekki auðfundnar núorðið. Fjöldi ólíkra mynda sem hún hefur komist yfir sýnir glögglega að náttúran hefur átt sterk ítök í ljósmyndurum síðustu aldar.

Rúrí segir að fossar séu henni sem hlutgervingur hins óendanlega tíma.

Listaverk í seríunni “Tímans rás” voru fyrst sýnd árið 1999.

Rúrí er fædd í Reykjavík árið 1951. Býr í Reykjavík, lærði á Íslandi og í Hollandi. Hefur áður búið og starfað í Hollandi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Rúrí hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýniningar víða og er margverðlaunaður listamaður.  Hún er þekkt fyrir útilistaverk eins og Regnbogann við flugstöðina í Keflavík og Fyssu í Grasagarðinum í Reykjavík, einnig innsetningar eins og Glerregn sem sýnt var vorið 2001 í Listasafni Íslands og PARADÍS? – Hvenær? sem sýnt var á Kjarvalsstöðum fyrir nokkrum árum. Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúr, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndir, video, hljóðverk, blönduð tækni tölvuvædd og gagnvirk verk. Listaverk hennar hafa verið sýnd á alþjóðlegum vettvangi, m. a. víða í Evrópu, í Ameríku og Asíu. Hún hefur verið valin sem fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003, sem opnar 14. júní næstkomandi