Home » 2016

Þríhöfði

List án landamæra ásamt Skaftfelli og LungA kynna samsýninguna Þríhöfða í Herðubreið á Seyðisfirði þann 11. júlí kl. 17:00. Seyðfirska bandið Times New Roman mun spila nokkur lög á opnuninni. 

Sýningin er samstarf austfirsku listamannanna Arons Kale, Daníels Björnssonar og Odee.

Markmið samstarfsins var að tengja saman ólíka listamenn og leyfa þeim að vinna saman að sameiginlegri listsköpun, þar sem óljóst væri hvaða listamaður hefði gert hvað. Samruni þessara listamanna skilar sér í áhugaverðri samsetningu listaverka, þar sem unnið var með blandaða tækni. 

Sýningin fjallar ekki einungis um verkin sjálf heldur ferðalagið frá upphafi til enda verkefnisins, þar sem ýmsar skissur og ljósmyndir frá samstarfinu fylgja.

Aron Kale er búsettur á Egilsstöðum. Aron er útskrifaður af starfsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum.  Aron hefur tekið þátt í List án landamæra á Austurlandi þar sem hann hefur sýnt teikningar sínar og málverk.  Aron tók þátt í samsýningu sem var í Norræna Húsinu í tenglsum við List án landamæra árið 2012.

Daníel Björnsson er búsettur á Seyðisfirði og stundar nám á starfsbraut við Menntaskólann á Egilsstöðum. Daníel hefur tekið þátt í List án landmæra á Seyðisfirði og sýnt meðal annars teikningar og frumsamið hljóðverk.

Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson, býr á Eskifirði með unnustu sinni og tveimur sonum. Hann hefur á stuttum tíma vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir áhugaverða listsköpun. Odee vinnur mest með svokallaða digital fusion eða visual mashup list sem hann kallar samrunalist. Þar vinnur hann með efni úr vinsælli menningu.

Hluti af List án landamæra og LungA