Home » Umgjörð

Umgjörð

Gestavinnustofunum er ætlað að stuðla að samfélagi listamanna og heimamanna, veita listamönnum rými til vaxtar og sköpunar í litlu samfélagi með óteljandi möguleikum og búa í haginn fyrir skapandi samræður milli listarinnar og hversdagsins.

Gestavinnustofurnar eru fyrst og fremst fyrir myndlistarmenn, en umsóknir frá listamönnum sem vinna á milli miðla eða í faggreinum er tengjast myndlist verða teknar til greina. Umsóknir frá hópum og fjölskyldum eru einnig vel séðar.

Dvalartími er frá 1 upp í 6 mánuði, en mælst er til að listamenn dvelji í um tvo mánuði. Einnig er hægt að sækja um skammtíma dvöl vegna rannsóknarvinnu.

Þátttakendur stýra sjálfir sínu sköpunar- eða rannsóknarferli með stuðningi og ráðgjöf frá starfsfólki Skaftfells. Þátttakendum er velkomið að taka þátt í fræðslustarfi Skaftfells, með listamannaspjalli, kynningum eða vinnusmiðjum fyrir nemendur Seyðisfjarðarskóla eða íbúa.

Forsendur og viðmið

Eftirfarandi forsendur eru hafðar til grundvallar á vali listamanna:
•    Gæði verka metin af innsendum gögnum.
•    Náms- og ferilskrá.
•    Staðfesting á fagmennsku, metin af innsendum gögnum.
•    Merki þess að dvöl í gestavinnustofu Skaftfells muni hafa gagnleg áhrif á listþróun og sköpunarferli  listamannsins.

Valnefnd sem samanstendur af aðilum úr myndlistarfaginu og menningargeiranum fer yfir og velur umsóknir. Mismunandi aðilar sitja í nefndinni árlega. Gestavinnustofum er úthlutað til listamanna út frá listrænum forsendum og gæðum verka, auk þess að viðfangsefni og verkefni samræmist starfsemi Skaftfells.

Umsóknarfrestur

Opnað er fyrir umsóknir í júní og umsóknafrestur er til 1. september. Umsóknareyðublað verður aðgengilegt á vefsíðu Skaftfells á umsóknartímabilinu.

Nánari upplýsingar

Upplýsingar gefur gestavinnustofufulltrúi í síma 472 1632 og residency(a)skaftfell.is.

Samstarfsaðilar gestavinnustofa

/var/www/vhosts/skaftfell.is/httpdocs/wordpress/wp content/uploads/2016/01/gi logo horizontal green srgb KKN-logo