Sýningin var sett upp í gamalli síldarverksmiðju sem gengur undir nafninu Gamla Norðursíld á Seyðisfirði. Síldarverksmiðja þessi þjónaði sem vinnustofa hennar þær vikur sem hún dvaldi hér. Fjallahringurinn sem er útsýni vinnustofunnar hefur hún teiknað aftur og aftur og hægt og rólega umbreyttist fjörðurinn í höndum hennar í fjöður (fjörður – fjöður). Sýningin er ein stór innsetning á sama tíma og hvert verk fær sitt andrými. Innsetningin samanstendur af teikningum af firðinum, löngum pappírsrenningum með orðinu “fjörður” skrifað aftur og aftur, fjöðrum sem límdar eru á pappír og fleiri stúdíum af orðinu sjálfu og útsýninu. Eftir því sem lengra er gengið inn í rýmið fær áhorfandinn að sjá umbreytingu fjarðarins.
Æviágrip
Christine Muhlberger er fædd í Sviss en hefur unnið að myndlist sinni víðs vegar um heiminn, á stöðum eins og London, New York, Munchen, Zurich, Krít, Brasilíu, Marokkó og nú síðast á Íslandi. Hún hefur haldið stórar sýningar í m.a. Brasilíu, New York og Sviss. Eftir átta vikna dvöl á Seyðisfirði sýnir hún nú afrakstur vinnu sinnar.
Verk hennar snúast um hreyfingu. Hreyfing sem slík er tjáð á marga mismunandi vegu. Hún sjálf hefur valið sér þá hreyfingu að ganga. Að ganga langar vegalengdir krefst samfelldni, varkárni, virðingar, auðmýktar og tíma. Á göngum sínum kemst hún í það ástand að vera. Hún fylgir sömu reglum í teikningum sínum og þannig nær hún nálgun við hið eiginlega og tæra form teikningarinnar, átakslaus léttleiki.