Fjallahringur Seyðisfjarðar

Garðar Eymundsson hefur nú lokið 15 mánaða vinnu við að teikna upp fjallahringinn sem umlykur Seyðisfjörð. Við vinnuna lá hann úti dögum saman til að fanga útlínur fjallanna og rissa svipbrigði þeirra á blað. Teikningarnar vann hann síðan áfram á vinnustofu sinni með blýantinn og augað að vopni. Garðar vann einnig útlínuteikningu af fjallahringnum með örnefnum allra fjalla og tinda, með dyggri aðstoð Vilhjálms Hjálmarssonar frá Brekku í Mjóafirði en Vilhjálmur útbjó einnig örnefnaskrá þar sem staðarháttum er lýst.

Þetta yfirgripsmikla verkefni er nú sýnt í Skaftfelli – miðstöð myndlistar á Austurlandi. Það er sannur heiður fyrir Skaftfell að bjóða almenningi á þessa sýningu, en Garðar Eymundsson á stóran þátt í tilurð Skaftfells og verður seint fullþakkað fyrir sinn hlut í stofnun miðstöðvarinnar.

Í tengslum við sýninguna hefur verið unnið vandað bókverk þar sem teikningarnar fá að njóta sín. Bókin er gefin út í 100 tölusettum og árituðum eintökum og verður til sölu í Skaftfelli.

Sýningarstjórar eru Björn Roth og Finnur Arnar.

Sýning Garðars stendur til 31. janúar 2010 og er opin miðvikudaga til sunnudaga frá 13:00 – 17:00. Aðgangur er ókeypis.

Æviágrip

Garðar Eymundsson er fæddur í Baldurshaga á Seyðisfirði nálægt sumarsólstöðum 1926. Hann ólst upp á traustu alþýðuheimili ásamt fjórum systkinum sínum. Faðir hans, Eymundur Ingvarsson frá Grímsey, tengdist verkalýðsbaráttu alla sína tíð og var lengi sjómaður á opnum árabátum. Móðir hans, Sigurborg Gunnarsdóttir af Héraði, var mikil hagleikskona sem allt lék í höndunum á. Garðar hóf skólagöngu 9 ára gamall eins og þá tíðkaðist. Hann fékk strax góða tilsögn í dráttlist og var farinn að teikna og mála mjög frambærilegar myndir tíu ára. Náttúru landsins og svipbrigðum kynntist hann á eigin skinni. Tólf ára var hann farinn að stunda fuglaveiðar með byssu og færa björg í bú og þrettán ára fór hann fyrst að heiman til sumarvinnu á Þórarinsstöðum við Seyðisfjörð. Öll ígripavinna var þegin, við kolaskip, uppskipun og útskipun, og 16 ára fór hann með seyðfirska fiskibátnum Valþóri á vertíð til Hornafjarðar sem beitningamaður. Um tíma naut hann tilsagnar skipasmiðsins Niels Hólms Petersens í trésmíði við Skipasmíðastöð Austurlands á Seyðisfirði. Tvítugur settist hann upp í rútu og var ferðinni heitið til Reykjavíkur. Fyrsta verk hans þar var að ná sér í góða liti og striga og fara að mála. Garðar velti fyrir sér myndlist sem starfi, en leist ekki betur en svo á lífsstíl meistaranna að hann ákvað að gerast trésmiður fyrst. Meðan á iðnnáminu stóð málaði hann í hjáverkum og seldust allar myndir hans jafnóðum. Hann og unnusta hans, Karólína Þorsteinsdóttir, giftust og hófu búskap í Reykjavík 1949. Þau fluttust síðan heim til Seyðisfjarðar 1951 og hafa búið þar að mestu síðan. Eiga þau saman fjögur börn, en Garðar átti einn son fyrir. Lengst af var Garðar umsvifamikill húsasmíðameistari og hefur komið að byggingu fleiri húsa en hægt er að nefna hér. Hann sá einnig um tréverk og innréttingar í svo að segja öll skipin 34 sem smíðuð voru hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar og Vélsmiðjunni Stál á árunum 1968 til 1991. Garðar hefur alla sína tíð stundað myndlist meðfram öðrum störfum, þroskað sína augljósu hæfileika og aldrei leyft þeim að leggjast í dróma. 78 ára féll hann endanlega í faðm listagyðjunnar, hætti trésmíðum og hefur síðan rekið eigin vinnustofu og gallerí. Fjölmargir hafa notið tilsagnar hans, bæði við húsagerðarlist og myndlist m.a. margir nemendur Listaháskóla Íslands. Sjálfur er hann þó stoltastur af listamiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði. Hann og Karólína kona hans gáfu húsið til menningarlífs á Seyðisfirði árið 1996 og hafa síðan bæði ýtt og togað.

Pétur Kristjánsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *