Birtingarmyndir ljóss og skugga

Seyðisfjörður hefur undanfarna mánuði verið að undirbúa endurkomu sólarinnar. Á síðasta ári var ljósinu fagnað á sjónrænan máta með hátíðinni List i Ljósi og verður hún endurtekin núna í ár.

Í aðdraganda hátíðarinnar skipulagði Skaftfell listsmiðju í Seyðisfjarðarskóla með áherslu á ljós og myrkur. Listakonurnar Hrafnhildur Gissurardóttir og Laura Tack leiddu smiðjuna sem var í boði fyrir 1. – 6. bekk, alls 43 nemendur.

Útkomuna má skoða og upplifa á sýningu í gömlu bókabúðinni, Austurvegi 23, laugardaginn 25. feb kl. 19:30.

Þrír nemendahópar fengu eina viku til að vinna með Hrafnhildi og Lauru. Í vinnuferlinu var safnað hugmyndum, farið í leiki og þögla göngutúra þar sem börnin voru hvött til að horfa og skynja umhverfi Seyðisfjarðar í stað þess að tala, farið á sýningar, málað, unnið með ýmiss efni og upplifanir í tengslum við ýmsar æfingar skjalfest. Í upphafi voru eftirfarandi spurningar ræddar:

Hvernig tilfinning fylgir ljósi eða myrkri? Hvernig hljóð? hvernig lykt?
Og hvernig getum við myndgert okkar afstæðu túlkun á hugtökunum?

Fyrsti og annar bekkur gerði ljóðrænt skuggaleikhús, þar sem þau sögðu sögu af dýrum sem búa í myrkviðum sjávarins og ferðalagi þeirra alla leið til geimsins.

Þriðji bekkur gerði skúlptúra sem tákna myrkur og ljós og skúlptúr sem táknaði spennuna á milli þessara tveggja póla. Í ferlinu uppgötvuðu þau að allt getur verið skúlptúr.

Fjórði bekkur gerði leikrit þar sem umhverfið var frumskógur fyrri tíma og hver og einn tók að sér hlutverk dýrs eða manns sem ýmist lifðir að nóttu eða að degi til. Leikverkið er án orða; hljóð, lýsing og umhverfi ásamt leikrænni tjáningu nemendanna skapar verkið.

Fimmti og sjötti bekkur bjó til og leikstýrði „stop motion“ videoi þar sem pólutísk málefni voru tekin fyrir, skoðuð og skopstæld. Hugtökin myrkur og ljós voru túlkuð í formi góðs og ills þar sem Donald Trump var í hlutverki myrkrahöfðingja sem kemur til Íslands á Norrænu ferjunni.