Velunnari Skaftfells fellur frá

Einn helsti velunnari Skaftfells, Garðar Eymundsson, féll nýlega frá. Garðar, ásamt konu sinni Karólínu Þorsteinsdóttur, voru mikilvægur hlekkur í stofnun Skaftfells þegar þau gáfu Skaftfellshópnum fasteignina að Austurvegi 42 að gjöf árið 1997. Í kjölfarið hófst mikið uppbyggingarstarf með það að leiðarljósi að efla menningarlíf á Seyðisfirði. Stjórn Skaftfells menningarmiðstöðvar tók til starfa árið 1998 og sýningarsalurinn var formlega vígður ári seinna.

Á mótunartímanum voru fyrstu sýningarnar: Boekie Woekie árið 1996, Sýning fyrir allt – til heiðurs og minninga um Dieter Roth árið 1998 og Bernd Koberling, Björn Roth & Dieter Roth árið 1999.

Í blaðaviðtali sem tekið er við Garðar og Grétu, dóttur hans, og birtist um aldamótin kemur m.a. fram að vonast er til að halda uppi metnaðarfullu alþjóðlegu sýningarhaldi, rækta tengsl við evrópskt listalíf, bjóða upp á vinnuaðstöðu fyrir lista- og fræðimenn og skipuleggja vönduð námskeið fyrir börn og unglinga.

/www/wp content/uploads/2017/04/mbl 2000 ska

Garðar var frá unga aldri listhneigður og á námsárum málaði hann í hjáverkum landslagsmyndir, sem seldust jafnóðum. Hann stundaði myndlist meðfram trésmíðastörfum og á eldri árum gaf hann sér tíma til að stunda listsköpun af fullum þrótta. Hann rak vinnustofu og gallerí á Norðurgötu til nokkurra ára og ófáir Listaháskólanemar fengu leiðsögn frá Garðari í gegnum námskeiðið Vinnustofa Seyðisfjörður, sem hófst árið 2001.

/www/wp content/uploads/2017/04/gardar eymundsson exhibition 29.11

Garðar opnaði einkasýninguna Fjallahringur Seyðisfjarðar í lok árs 2009 í sýningarsal Skaftfells. Til sýnis var afrakstur frá fimmtán mánaða löngu vinnuferli þar sem Garðar hafði kortlagt fjallagarðinn og dregið upp nákvæmar blýantsteikningar af landslaginu. Samhliða vann hann útlínuteikningar með örnefnum allra fjalla og tinda, í samstarfi við Vilhjálm Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði. Í tengslum við sýninguna var gefið út vandað bókverk í 100 eintökum með öllum teikningunum ásamt örnefnaskrá. Fyrsta upplagið seldist hratt upp og var bókin endurprentuð stuttu síðar.

Framlag Garðars og fjölskyldu hans til menningarlífs á Seyðisfirði er ómetanlegt og gefið af sér marga vaxtasprota. Eins var skrásetning hans á umhverfi Seyðisfjarðar einstætt þrekvirki sem komandi kynslóðir munu njóta góðs af.

Ljósmyndir: Nikolas Grabar