Ingólfur Arnarsson, Þuríður Rós Sigurþórsdóttir

Sýningarstjóri Gavin Morrison

Listamennirnir Ingólfur Arnarsson (f. 1956) og Þuríður Rós Sigurþórsdóttir (f.1975) virðast við fyrstu sýn nota ólíkar leiðir í listsköpun sinni. Stefnumót verkanna sem hér eru til sýnis felst í spurningunni um málaralistina, verkin geta talist til málaralistar án þess að vera eiginleg málverk.

Steinsteyptar lágmyndir Ingólfs birtast sem kyrrlát inngrip með óreglulegu millibili á veggjum sýningarrýmisins. Þær er svipaðar að lögun og gerð, flöturinn sem snýr að áhorfandanum hefur verið pússaður niður, sléttaður af natni og grunnaður þannig að hann virðist fullkomlega lygn. Tilbrigðin liggja í hluta ferhyrningsins sem litur hefur verið borinn á, ýmist efri eða neðri hlutar flatanna hafa verið þaktir misdaufum tónum vatnslita. Áhorfandinn stendur hér frammi fyrir grunnspurningum um málverkið. Notkun Ingólfs á steinsteypu staðfestir efniskennda eiginleika málverksins en tengir myndirnar frekar yfir í byggingarlist og við sjálfan vegginn sem verkið hangir á heldur en við myndverk eða málverk í hefðbundnum skilningi. Fínleg litanotkunin og staðfast auga fyrir smáatriðum í áferðarsköpun ljær einnig mýkt sem setur úr skorðum fyrstu og kannski augljósustu ályktun manns um að hér sé á ferðinni hrein naumhyggja.

Á meðan verk Ingólfs hafa með lóðrétta fleti veggjarins að gera beinir Þuríður athyglinni að láréttum gólffletinum en á sama hátt draga verk hennar fram eðli flatarins sjálfs. Áprentaðir litríkir silkifletir virka eins og málverk sem lögð hafa verið til á gólfinu. Þeim er lyft lítillega frá gólffletinum upp á lága stöpla og sumstaðar er flötur þeirra brotin upp með hlutum sem liggja óséðir rétt undir yfirborðinu. Ef gegnumtrekkur fer í gegnum sýningarrýmið fara verkin á hreyfingu þar sem silkið gengur í bylgjum. Þetta verður til þess að draga fram form, og gljáandi efniskennd þeirra. Ólíkt hreinni abstrakt Ingólfs eru verk Þuríðar prýdd teikningum af raunverulegum verkum hennar – og ímynduðum, innan þess ramma sem listasýning býður uppá.

Sýningin býður uppá vangaveltur um efniskennd og fleti og endurskoðun vafans um það hvað felst í málverki og hvað gerir málverk að málverki. Enn fremur veltir hún upp hugmyndum um það hvernig listaverk taka yfir rými eða hvernig þau búa um sig í rýminu og vinna með því, tengja við það, við arkitektúrinn sjálfan, við lóðrétta og lárétta fleti rýmisins sem hvor listamaður um sig hefur hér tekið í sína þjónustu.

Til að draga enn fremur fram gagnvirknina á milli verkanna og rýmisins verður flutt hljóðverk á opnun sýningarinnar, eftir raftónsmiðinn Auxpan, sérstaklega samsett og flutt af þessu tilefni.

Gavin Morrison

Æviágrip listamanna

Ingólfur Arnarsson er fæddur árið 1956 og stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og eftir það framhaldsnám við Jan Van Eyck akademíuna, Maastricht, í Hollandi. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga hér heima og erlendis þar með talið: i8 gallerí, Hafnarborg (2013), Safn (2005), CCNOA, Brussel, Belgíu (1999), Kjarvalsstadir, Listasafn Reykjavíkur (1996) og Städtisches Museum Abteiberg, Mönchengladbach, Þýskalandi (1995). Þar að auki er varanleg innsetning eftir Ingólf í Donald Judd Chinati Foundation, Marfa, Texas, Bandaríkjunum (1992). Hann starfaði sem prófessor í Listaháskóla Íslands á árunum 2000-2007 og stofnaði og stýrði, ásamt Pétri Arasyni, Gallerí Önnur hæð í Reykjavík frá 1992-1997.

Þuríður Rós Sigurþórsdóttir, fædd 1975, býr og starfar í New York. Árið 2000 lauk hún námi í fatahönnun frá Central St. Martins College of Art and Design, London og árið 2008 útskrifaðist hún með MFA gráðu frá School of Visual Arts, New York. Hún starfar í hönnunarteyminu Vík Prjónsdóttir. Þuríður hefur sýnt víða ma: Cakes, WAY OVER, The Icelandic Art Center, New York, USA (2015), In Production, BOX, Árhús, Danmörku (2014), “I’ve never seen figurative electricity” Ásmundarsafn, Listasafn Reykjavíkur (2014), Parlor Show, Smiðjustígur 10 Reykjavík (2013), Vík Prónsdóttir & Eley Kishimoto, Hönnunarmars í Reykjavík (2013), Hinumeginn, einkasýning, Hafnarborg (2012), Nordic Fashion Biennale, Nordic Heritage Museum, Seattle (2011), Chinese take Out, Art In General, New York, USA (2011) Hidden World, Spark Design Space, Reykjavík (2010), Possible Press Project, New York, USA (2010) Ripped From Something Bigger, Skaftfell, Seyðisfjörður (2009).

Samstarfsaðilar

Sýningin er unnin í samstarfi við i8 gallery

Styrktaraðilar

Sýningin er styrk af Uppbyggingarsjóði og Myndlistarsjóði.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *