Air Conditions

Skaftfell listamiðstöð kynnir með ánægju samsýninguna Air Conditions
Listamenn: Anna Eglite, Inger Wold Lund, Jenny Berger Myhre, Mariana Murcia, Oceanfloor Group, Signe Lidén, Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson og William Kudahl

Boðið er til opnunar laugardaginn 9. nóvember kl. 16:00 og í kjölfarið verður haldinn fyrsti af þremur hlustunarviðburðum kl. 17:00.

Air Conditions er sýning bæði um loft og í loftinu. Samsýningin dregur saman verk átta listamanna sem vinna með hljóð, vídeó, teikningu og skúlptúr og sýnir ólík verk sem taka útgangspunkt frá viðfangsefninu loft og líðandi umhverfa þess.

Hlustunarviðburðurðirnir verða lifandi í galleríi Skaftfells þar sem flutt verða verk sem unnin voru fyrir Air Conditions:

Laugardaginn 9. nóvember
17:00 – hlustunarviðburður #1 í beinni útsendingu
Laugardaginn 16. nóvember
16:00 – hlustunarviðburður #2 í beinni útsendingu
Þriðjudaginn 19. nóvember
16:00 – hlustunarviðburður #3 í beinni útsendingu

Allir viðburðirnir eru sendir út úr galleríinu með útvarpsbylgjum og hægt verður að nálgast beina útsendingu á Seyðisfjörður Community Radio 107.1 og á netinu.

Sýningin verður opin 9. – 23. nóvember: þriðjudaga-föstudaga kl. 10-15 og laugardaga kl. 15-18.

Air Conditions er árleg samkoma opins hóps fólks sem beinir athygli sinni og næmni að lofti. Lofti sem förunauti, sem viðfangsefni, innihaldi, hugleiðingu, vistfræði. Hópurinn leitar nýrra leiða við listræna samvinnu og hefur í áranna rás tekið á sig ýmsar myndir: ráðstefnu, bréfaskipta og námskeiðs. Í ár standa Lasse Høgenhof og William Kudahl fyrir Air Conditions. 

Air Conditions vinnur með Skaftfelli listamiðstöð og býður upp á sýningu í loftinu í tvíþættri merkingu. Samsýningin, með framlögum átta listamanna sem vinna með hljóð, myndbönd, teikningar og skúlptúr, inniheldur fjölbreytt verk sem nota loft og aðstæður þess sem útgangspunkt: svanur syngur sonnettusveig, þau hljóð sem orð mynda þegar þau svífa um loftið, taktur sjávarfalla, klarinettur og orgel, brot úr loftræstibúnaði. En einnig með því að nota útvarpið sem sýningarrými. Með flutningi verkanna í útvarpi, bæði í sýningarrýminu og í röð útsendinga, er sýningin bókstaflega í loftinu. 

Sýningarstjóri er Celia Harrison.

Kynning á listafólki

SIGNE LIDÉN er listakona, búsett í Osló. Í verkum sínum kannar hún tengsl milli staða, skynjunar og hljóðs. Hún notar vettvangsupptökur, hljóðfærasmíð og samræður til að nálgast stað sem hún skilgreinir sem kraftmikið verðandi afl, sprottið af jarðfræðilegum, líffræðilegum og loftrænum ferlum, auk samfélags- og efnahagslegra tengsla. Verk hennar spanna allt frá hljóðinnsetningum, myndböndum og gjörningum til heimildaverka á borð við hljóðesseyjur og gagnageymslur. Fyrir sýninguna Air Conditions hefur Signe skapað hljóðesseyju sem ímyndar sér og rannsakar takt jarðarinnar; rytma skorpufalla, hnattrænar öldur, taktbundin tengsl hins staðræna og hins hnattræna, milli jarðar og líkama.

INGER WOLD LUND er listakona og rithöfundur með aðsetur í Berlín. Hún hefur skrifað tvær bækur í fullri lengd og nokkur smárit á móðurmáli sínu, norsku, sem gefin hafa verið út af Cappelen Damm, Flamme forlaginu og H//O//F. Safn sagna eftir hana hefur komið út á ensku hjá Ugly Duckling Press. Lund lærði í Listaháskólanum í Osló, Konstfack lista- og hönnunarskólanum í Stokkhólmi og í Listaháskólanum í Frankfurt am Main. Fyrir þessa sýningu hefur hún samið röð öndunaræfinga sem ganga út frá efnislegri ímyndun orða og því formi sem þau taka sér í, og á milli, líkama. 

JENNY BERGER MYHRE er þverfagleg listakona sem vinnur með hljóð, vídeó og ljósmyndun. Í verkum sínum rannsakar hún og afhjúpar hið persónulega á heiðarlegan og forvitnilegan hátt. Tónlist hennar er sköpuð úr vettvangsupptökum, lagabútum, tölvugerðum lotum, einingahljóðgervlum og gamaldags raftækni – úr verður hljóðheimur sem vísar bæði í hefðbundna raf- og órafmagnaða tónlist og tilraunapopptónlist. Jenny leitast við að ryðja burt væntingum um hreina tónlistartilburði með því að einbeita sér að hljóðunum í sjálfum sér, og þeim hugmyndum sem þau kveikja hjá okkur, innblásnum af hlustun sem venslum – leið til að tengjast heiminum og öðrum lífverum. Tónverkið sem hún samdi fyrir þessa sýningu er hægfara hljóðráf í gegnum ýmsar skýjamyndanir, hæglátt fall og lending inn og út úr óefniskenndum aðstæðum. 

VILHJÁLMUR YNGVI HJÁLMARSSON leggur aðaláherslu á eigið sköpunarferli, sem einkennist að stærstum hluta af tilraunastarfsemi. Hugmyndir þurfa tíma og pláss til að blómstra, svo að Vilhjálmur vill ekki binda sig við neinn einn miðil. Verkin sjálf eru sprottin af ólíkum kveikjum; einhverju athyglisverðu sem hann sá á gönguferð, eða samræðum. Forvitni og áhugi listamannsins ræður ríkjum, í garð einhvers sem hann skilur ekki alveg eða langar að skilja betur. Í þessari sýningu sýnir Vilhjálmur minjar og brot úr röð tilrauna til að fanga, halda og geyma hljóð. Hann hrífst af þeirri spennu og þeim brestum sem finna má í uppblásanlegum hlutum og af hugmyndinni um föngun hljóðs, og hefur stráð hlutum, skrásetningu og gjörningaviðburðum um sýningarrýmið, bæði á gólfi og í lofti. 

MARIANA MURCIA er listakona og sundkona. Með gjörninga viðhorfi vinnur hún oft með vatni, hitastigi og öðru fólki. Hún byggir á reynslu sinni af því að fást við takmörk og staðsetningu líkama síns og umhverfis hans, og spyr sig stöðugt: Ef það sem er fyrir framan mig er mér framandi frá standandi sjónarhorni, hvernig get ég snúið því við með því að vera framandi í nærveru þess sem er? Vídeóið hennar býst við hljóðsamskiptum við hlustendur. Það er upphaf fjarvirkrar hreyfingar sem stefnir að samræðum án munnlegs tungumáls. Í samvinnu Mariönu og alpalúðrablásara segir textinn sem fylgir myndunum sögu djúps hljóðs sem ætlað er að berast langar vegalengdir. Handan sjónmáls en snertir okkur. Kallar á hin ó-mannlegu. Andar samhygð út og inn.

ANNA EGLITE er arkitekt sem notar kort og teikningar til að kanna borgir og menningarlegt landslag sem er í stöðugu umbreytingarferli. Hún hefur áhuga á sögu staða í tengslum við vistfræði þeirra og nýjan skilning á náttúrunni. Anna lærði við Konunglega danska háskólann. Teikningar hennar á sýningunni eru af loftstokkum í hlutföllunum 1:1; rásum eða göngum sem notuð eru til upphitunar, loftræstingar og loftkælingar, til að flytja loft inn og út úr byggingum. Teikningarnar eru í senn framandi og kunnuglegar, þær sýna uppbyggingu þess sem er bæði augljóst og dulið. 

OCEANFLOOR GROUP er samvinnuverkefni Aoife Colman, Ellem Skovhøj og Lasse Høgenhof. Skyni gæddur, listrænn vistfræðihópur sem hefur samskipti úr fjarska, kemur saman, skrásetur og gefur af sér – á sviði tónverka, innsetninga, skrifa, útvarps, gjörninga, kvikmynda og samvinnumyndgerðar. Framlag þeirra til Air Conditions stælir og spinnur líkamleg og töfrum líkust umskiptin yfir í heim álftarinnar. Í gegnum sonnettusveig, í frásögn tréskúlptúrs, líða þau í gegnum lög verufræðinnar og samskipta sem eiga sér stað í þessum lögum, sveigjast og móta teygjanleika aðskilnaðar. 

WILLIAM KUDAHL er listamaður og rithöfundur sem vinnur aðallega með hljóð. Verk hans eru oft athugun á jöðrum og mörkum hversdagsins, undir áhrifum frá því sem George Perec kallaði undir-venjulegt; hluti sem maður tekur ekki eftir, sem eru ekki neitt í sjálfu sér heldur frekar fyrir, eftir eða samsíða öðru. Fyrir Air Conditions hefur William samið hljóðverk með upptökum frá orgelinu í Seyðisfjarðarkirkju, þar sem hann kannar orgelið sem hljóðfæri og einfaldleika stakra tóna; orðlaus skilaboð og áhrif þeirra á líkamann; að því er virðist óendanlegan andardrátt orgelsins og þá hljómun og hljóðbylgjur sem það gefur frá sér. 

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *