Um okkur

Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, er staðsett við Austurveg 42 á Seyðisfirði og er nafn stofnunarinnar dregið af þrílyfta timburhúsinu sem hýsir hana.

Miðstöðin var formlega opnuð árið 1998 og er starfsemin tileinkuð miðlun, viðgangi og framþróun myndlistar á Austurlandi í formi sýningarhalds, reksturs gestavinnustofu og fræðslustarfs. Hún er ein þriggja menningarmiðstöðva á Austurlandi, samkvæmt samningi ríkisins og sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál.

Markmið starfseminnar er að auka aðgengi Austfirðinga að vandaðri samtímalist og stuðla að dýpri þekkingu og skilningi á hlutverki myndlistar í samtímanum ásamt því að skapa örvandi vinnuumhverfi fyrir listamenn. Árið 2013 hlaut Skaftfell Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar.

Í Skaftfelli er listamannaíbúð á efstu hæði fyrir gestalistamenn Skaftfells; á annarri hæð er sýningarsalur og skrifstofa,  á jarðhæðinni er Skaftfell bistró. Þar eru verk Dieter Roth og Björn Roth til sýnis á austurvegg og á Vesturvegg Skaftfell bistró eru settar upp tímabundnar sýningar listamanna af svæðinu og gestalistamanna Skaftfells. 

 

Árið 1996 fékk áhugamannahópur um menningu og listir, oftast nefndur Skaftfellshópurinn, húsið að Austurvegi 42 á Seyðisfirði að gjöf frá hjónunum Karólínu Þorsteinsdóttur og Garðari Eymundssyni. Í kjölfarið hófst mikið uppbyggingarstarf með það að leiðarljósi að efla menningarlíf á Seyðisfirði. Stjórn Skaftfells menningarmiðstöðvar tók til starfa árið 1998 og sýningarsalurinn var formlega vígður ári seinna.

Á mótunartímanum voru fyrstu sýningarnar: Boekie Woekie árið 1996, Sýning fyrir allt – til heiðurs og minninga um Dieter Roth árið 1998 og Bernd Koberling, Björn Roth & Dieter Roth árið 1999.

Stofnár listamiðstöðvarinnar er einnig dánarár listamannsins Dieters Roth (1930-1998). Dieter gegndi stóru hlutverki í menningarflóru Seyðfirðinga, allt frá því hann hóf að venja komur sínar á Seyðisfjörð upp úr 1990. Skaftfellshópurinn samanstendur að miklu leyti af fólki sem naut mikilla og góðra samvista við Dieter, og er tilurð miðstöðvarinnar sprottin úr þeim frjóa jarðvegi er hann átti þátt í að skapa á Seyðisfirði.

Skaftfell hefur ávallt verið rekið sem sjálfseignarstofnun og þegið fjárstyrki í gegnum árin bæði frá ríki og bæ. Þar er nú rekin listamiðstöð með áherslu á sýningar á samtímalistum, rekstur gestavinnustofa fyrir listamenn og fræðslustarf á öllum skólastigum.

Í stjórn stofnunarinnar sitja aðilar fyrir hönd Skaftfellshópsins; Bandalags íslenskra listamanna; gefenda hússins og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Í Skaftfelli er starfandi fagráð sem skipuleggur listræna starfsemi frá ári til árs. Forstöðumaður sinnir öllum þeim störfum er lúta að rekstri stofnunarinnar, með dyggri aðstoð stjórnar og Skaftfellshópsins.

Skaftfell var reist af byggingameistaranum Guðfinni Jónssyni, árið 1907. Húsið er þriggja hæða, 420 fermetrar, byggt samkvæmt norskri fyrirmynd með nýklassísku yfirbragði og er mikil prýði í götumyndinni. Fyrstu árin var rekið gullsmíðaverkstæði á jarðhæðinni og veitinga- og gistihús á efri hæðum. Síðar tóku fleiri verslanir við, þar var um tíma norskt sjómannaheimili, ölstofa, veitingasala, hótel og síðast trésmíðaverkstæði Garðars Eymundssonar.

Í blaðaviðtali sem tekið er við Garðar og Grétu, dóttur hans, og birtist um aldamótin kemur m.a. fram að vonast er til að halda uppi metnaðarfullu alþjóðlegu sýningarhaldi, rækta tengsl við evrópskt listalíf, bjóða upp á vinnuaðstöðu fyrir lista- og fræðimenn og skipuleggja vönduð námskeið fyrir börn og unglinga.

Skaftfellshópurinn

Skaftfellshópurinn er grasrótarfélagsskapur stofnaður 1997. Félagsskapurinn stofnaði listamiðstöðina Skaftfelli og hefur æ síðan studd dyggilega við bakið á starfsemi miðstöðvarinnar með óeigingjörnu starfi á ýmsum vígstöðvum, allt frá pólitískum lobbíisma til aðstoðar við múrvinnu.

Í dag hefur Skaftfellshópurinn það hlutverk að vera bakland Skaftfells og standa vörð um starfsemi þessi.

Hópurinn saman stendur af fjölda fólks sem ber hag Skaftfells fyrir brjósti, það sem einkennir hópinn eru tengsl hans annarsvegar við myndlistarheiminn og hinsvegar við Seyðisfjörð.

Hópurinn á tvo fulltrúa í stjórn Skaftfells auk tveggja aðalmanna, þeirra hlutverk er að gæta þess að Skaftfell þróist og dafni í samræmi við upprunalega hugmyndafræði Skaftfells og í takt við alþjóðlega strauma og stefnur í listheiminum.

Auk þess að velja fulltrúa í stjórn Skaftfells er hópurinn til staðar fyrir stjórnendur Skaftfells þegar á þarf að halda, hvort sem það er til skrafs og ráðagerða eða til að leggjahönd á plóg í skilgreindum verkefnum.

Það er mjög gaman að vera meðlimur í Skaftfellshópum, formleg fundarhöld eru í lágmarki en aðalfundur er haldinn á 3 ára fresti, í takt við endurnýjun stjórnar Skaftfells. Aðrir fundir eru fyrst og fremst haldnir til að vinna að verkefnum í þágu Skaftfells og til að njóta þess að hittast. Stjórn hópsins vinnur með forstöðumanni Skaftfells að því að styrkja starfsemi hópsins og leggur mikla áherslu á nýliðun innan hópsins.

Allir sem bera hag Skaftfells fyrir brjósti eru hvattir til að gerast meðlimir í hópnum. Auk þess að leggja sitt af mörkum til að styðja við starfsemi Skaftfells fá hópmeðlimir einnig regluleg fréttabréf um starfsemina og fara á boðslista fyrir sýningar. Meðlimum hópsins bjóðast einnig sérkjör á völdu efni í verslun Skaftfells og er gefin kostur á að kaupa í forsölu allt efni sem Skaftfell gefur út eða framleiðir sé þess kostur.

Félagsgjöld eru rukkuð árlega og er greiðslan og upphæð hennar valfrjáls þó miðað sé við 2.000 kr. Félagsgjöld frá meðlimum Skaftfellshópsins renna óskipt og óbundin til starfsemi Skaftfells.

Þó að grunnmenntun Dieters Roth hafi verið auglýsingateiknun frá grafíska skólanum í Bern í Sviss, þá var allt hans líf (eins og hjá mörgum) eins konar menntunarferli. Hann ferðaðist um, setti sig niður á mismunandi stöðum í mismunandi löndum, komst í sambönd við fólk sem aðhylltist mismunandi strauma og stefnur, ekki síður handverksmenn en listamenn og vann með þeim.

Dieter Roth Akademían saman stendur af þessu sama fólki (þeim sem enn eru á lífi) og má kalla „prófessora“ akademíunnar. Nemendur geta ferðast og hitt þetta fólk í lengri eða skemmri tíma og unnið með því eða ekki.
Akademían er ekki stofnun og hefur engan rekstur og enga skriffinnsku. Það má kalla það fyrstu lexíuna í akademíunni að alla skipulagningu og pappírsvinnu sem fylgir því að komast í samband við prófessorana víða um heim verða nemendur að sjá um sjálfir.

Nemendur fá eingöngu hjálp hjá hverjum og einstökum prófessor, sem þeir mögulega komast í samband við. Það er að hver og einstakur prófessor getur mælt með nemanda sem þá að sjálfsögðu aðrir prófessorar taka gildan.
Heimilisfang akademíunnar er Skaftfell á Seyðisfirði.

Prófessorar akademíunnar eru eftirtaldir:

Eggert Einarsson – Reykjavík
Kristján Guðmundsson – Reykjavík
Sigurður Guðmundsson – China
Gunnar Helgason – Reykjavík
Dorothy Iannone – Berlin
Bernd Koberling – Berlin
Pétur Kristjánsson – Seyðisfjörður
Rainer und Agnes Pretzell – Abaliget
Björn Roth – Basel
Andrea Tippel – Berlin
Rúna Thorkelsdóttir – Amsterdam
Henriëtte van Egten – Amsterdam
Jan Voss – Amsterdam
Tom Wasmuth – New Mexico

Staff

Celia Harrison, forstöðumaður

director@skaftfell.is / skaftfell@skaftfell.is

Celia hefur mikla reynslu og ástríðu fyrir list og hefur unnið sem listrænn stjórnandi, framleiðandi og sýningarstjóri og hefur verið búsett á Seyðisfirði síðan 2015. Hún hefur gengt lykilhlutverkum sem stjórnandi listastofnana bæði á Nýja Sjálandi og Íslandi, fyrir skemmstu hjá LungA skólanum og sem með-stofnandi af menningar- og félagsheimilinu Herðubreið ásamt listahátíðinni List í ljósi. 

Celia er með doktorsgráðu í list og hönnun þar sem hún lagði áherslu á að rannsaka samfélagsþróun í gegnum listsköpun á tímum loftslagsáskoranna. Í hugleiðingum um Skaftfell segir hún: “Skaftfell er einstök listamiðstöð sem skipar stóran sess í sögu Seyðisfjarðar og Austurlands. Það er sannur heiður að fá tækifæri til að halda áfram þeirri listrænu arfleið og ég hlakka til að vinna með öllum sem að henni koma. 

Celia tók við starfi forstöðumanns Skaftfells í janúar 2024.

Kamilla Gylfadóttir, gestavinnustofa og fræðsla 

residency@skaftfelll.is / fraedsla@skaftfell.is

Kamilla Gylfadóttir tók við stöðu verkefnastjóra fræðsludeildar Skaftfells í júlí 2022 og síðan ágúst 2023 hefur hún séð um gestavinnustofu Skaftfells. Hún útskrifaðist með B.A. gráðu í ítölsku og ferðamálafræði árið 2014, lærði ljósmyndun í Árósum og kvikmyndagerð í Sarajevo og hefur unnið með list og kvikmyndir síðan. Árið 2020 lauk hún M.A. námi í kvikmyndavarðvörslu og miðlun við Háskólan í Amsterdam. Hún sá um kennslu á listfræðsluverkefni Skaftfells árið 2021 ásamt því að skipuleggja og kenna Skjaldbökuna, námskeið í heimildarmyndagerð sem er hluti af BRAS 2022. Hún er hluti af Heimamyndasamsteypunni sem hefur staðið að sýningu á íslenskum heimamyndum síðan 2020.

Fyrri forstöðumenn

2006 – 2011 Þórunn Eymundardóttir

2011 – 2018 Tinna Guðmundsdóttir

2018 – 2020 Gavin Morrison

2020 – 2022 Hanna Christel Sigurkarlsdóttir & Julia Martin

2022 – 2024 Pari Stave

 

Fyrri gestavinnustofufulltrúar

2012 – 2014 Litten Nýstrøm

2015 – 2022 Julia Martin

 

Fyrri fræðslufulltruar

2015 – 2022 Hanna Christel Sigurkarlsdóttir

2022: Aino Peltola og Netta Alanko (Pekka Halonen Academi, FI), Ra Tack

2021: Magdalena Noga, Ísold Gná Ingvadóttir

2020: Unnur Birna J. Backman

2019: Mary Buckland, Lilaï Licata

2018: Jenny Niinimaa og Ninni Olllikainen (Pekka Halonen Academi, FI), Carlotta von Haebler

2016: Eva Jaskova, AAAD Prague

2015: Lisa Paland, Hochschule Merseburg

2014: Becky Forsythe, Georgian College

2013: Jasmin Meinold, HBK Braunschweig

Núverandi stjórn — síðan 2020

  • Nína Magnúsdóttir, formaður. Varamaður Gunnhildur Hauksdóttir
  • Oddný Björk Daníelsdóttir, ritari. Varamaður Hildur Þórisdóttir
  • Sesselja Hlín Jónasardóttir. Varamaður Garðar Bachmann Þórðarson
  • Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM. Varamaður Erling Jóhannesson, forseti BÍL
  • Tumi Magnússon. Varamaður Markús Þór Andrésson

Fyrrverandi sjórnir

2017-2020

  • Auður Jörundsdóttir, chairman. Alternate Gunnhildur Hauksdóttir
  • Svava Lárusdóttir. Alternate Vilhjálmur Jónsson
  • Jökull Snær Þórðarson. Alternate Júlíana Björk Garðarsdóttir
  • Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM. Alternate Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL
  • Fríða Björk Ingvarsdóttir. Alternate Markús Þór Andrésson

2014-2017

  • Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, chairman. Alternate Gunnhildur Hauksdóttir
  • Svava Lárusdóttir, ritari. Alternate Vilhjálmur Jónsson
  • Gréta Garðarsdóttir. Alternate Jökull Snær Þórðarson
  • Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM. Alternate Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL
  • Fríða Björk Ingvarsdóttir. Alternate Markús Þór Andrésson

2011-2014

  • Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, chairman. Alternate: Ólafur Örn Pétursson
  • Svava  Lárusdóttir, varaformaður og gjaldkeri. Alternate: Vilhjálmur Jónsson
  • Helgi Örn Pétursson, ritari. Alternate: Garðar Backman
  • Hrafnhildur Sigurðardóttir. Alternate: Ásta Ólafsdóttir
  • Daníel Karl Björnsson. Alternate: Aðalheiður Borgþórsdóttir

2008-2011

  • Daníel Björnsson, chairman. Alternate: Eggert Einarsson
  • Hildigunnur Birgisdóttir, varaformaður. Alternate: Hanna Christel Sigurkarlsdóttir
  • María Gaskell. Alternate: Jón Óskar
  • Helgi Örn Pétursson. Alternate: Goddur
  • Elva Hlín Pétursdóttir. Alternate: Klas Poulsen

Organisational charter — Icelandic

Visit

GalleryEvery day from noon to 5pm 
Office Monday – Friday from 9am to 3pm 
Bistró

Tue—Fri   3pm to 11pm
Sat   3pm to 1am
Sun—Mon   Closed

Reservation — +354 472 1633

 
Ásgeir’s House By appointment only. Please contact skaftfell@skaftfell.is . 
TvísöngurAlways open. Accessible in good weather conditions. 

Contact us

Please enable JavaScript in your browser to complete this form.
Name

Add Your Heading Text Here