Nýr listrænn stjórnandi: Ráðhildur Ingadóttir

Skaftfell – miðstöð myndlistar á Austurlandi tilnefnir af mikilli ánægju Ráðhildi Ingadóttur sem listrænan stjórnanda fyrir árin 2013-2014.

Ráðhildur Ingadóttir er fædd 1959 og hefur starfað sem myndlistarmaður um áralangt skeið. Hún nam myndlist í Bretlandi en býr og starfar í Danmörku og á Íslandi. Verkefni Ráðhildar hafa verið af margvíslegum toga. Hún hefur m.a. starfað sem stundakennari í Listaháskóla Íslands og verið mjög virk í sýningarhaldi undanfarin ár, jafnt innanlands sem utan.

Starfsemi Skaftfells er helguð myndlist og þjónar miðstöðin öllu Austurlandi. Þar eru rekin tvö sýningarrými, auk verkefnarýmis, þrjár gestavinnustofur auk þess sem Skaftfell sinnir fræðslustarfi. Sýningarhald hefur verið öflugt og fjölbreytt með áherslu á vandaða blöndu af framsækinni samtímalist og hefðbundnari listsýningum, ýmist eftir innlenda eða erlenda listamenn.

Frá 2009 hefur Skaftfell útnefnt listrænan stjórnandi til tveggja ára. Fyrstur í röðinni var Björn Roth og þá Christoph Büchel. Hlutverk listræns stjórnanda er að móta stefnu miðstöðvarinnar í sýningahaldi, sem og fræðslu og öðrum verkefnum. Tilnefningin er heiðursstaða.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *