TRARAPPA

Árlega fara myndlistarnemar á þriðja ári Listaháskóla Íslands í vinnustofuferð til Seyðisfjarðar. Verkefnið er haldið á vegum skólans, Dieter Roth Akademíunnar, Skaftfells og Tækniminjasafns Austurlands.

Allir nemendur hafa haft það að leiðarljósi að nýta sér umhverfi bæjarins og einstaka hjálpsemi Seyðisfirðinga við gerð verka sinna. Möguleikarnir eru óteljandi og viðfangsefnin fjölbreytt.

Einn nemandi hefur til dæmis unnið náið með sprengjusérfræðingi bæjarins á sama tíma og annar hefur valið sér það verkefni að safna hlátri heimamanna. Aðrir nemendur hafa þá einbeitt sér að náttúru og umhverfi Seyðisfjarðar en vinna á ólíkan máta úr efniviðnum.

Laugardaginn 2. mars kl. 16 opnar sýningin Trarappa í Skaftfelli þar sem afrakstur þessarar tveggja vikna vinnu verður til sýnis. Hópurinn er með heimasíðu þar sem fylgjast má með undirbúningi og daglegu lífi þeirra á Seyðisfirði: http://trarappa.tumblr.com. Sýningin stendur yfir til 5. maí.

Þátttakendur eru Ásgeir Skúlason, Dagrún Aðalsteinsdóttir, Emma Guðrún Heiðarsdóttir, Halla Birgisdóttir, Hrönn Gunnarsdóttir, Katrín Dögg Valsdóttir, Leifur Ýmir Eyjólfsson, Matthías Rúnar Sigurðsson, Nikulás S. Nikulásson, Ólöf Kristín Helgadóttir, Ólöf Rún Benediktsdóttir, Ragnheiður M. Sturludóttir, Þorgerður Þórhallsdóttir og Victor Ocares.

Leiðbeinendur og sýningarstjórar eru Björn Roth og Kristján Steingrímur Jónsson.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *