Jaðaráhrif

Sýningin í Skaftfelli er önnur af sjö sýningum sem opna í margpóla sýningarröðinni Edge Effects og er hluti af alþjóðlega samstarfsverkefninu Frontiers in Retreat. Þremur listamönnum, Kati Gausmann, Ráðhildi Ingadóttur og Richard Skelton var boðið gestavinnustofudvöl til að rannsaka sérstaklega snertifleti myndlistar og vistfræðilegra málefna. Listamennirnir fengu tvisvar tækifæri til að ferðast til Seyðisfjarðar og dvöldu samtals í þrjá mánuði hver. Mjög snemma í ferlinu vakti íslensk náttúrufegurð áhuga listamanna en þegar leið á dvölina var hver listamaður farin skoða marga mismunandi þræði fortíðar og framtíðar, hið mannlega og ómannlega, meðvitund og ómeðvitund, náttúru og tækni. Nokkur lykilhugtök voru orðin greinileg í lok ferlisins: samvist ólíkra lífvera, náttúrutengsl, hin ósýnilegi heimur, félagslegur og efnislegur auður og staðbundin þekking. Seinni hluti dvalarinnar fór mjög ákveðið í að samvefja og umbreyta ólíkum þráðum, hugmyndum og tilfinningum í listaverk, sem nú eru til sýnis í sýningarsal Skaftfells.

Listrænar niðurstöður tóku á sig margar birtingamyndir. Kati Gausmann birtir okkur stærðargráður tímans og himingeimsins, jarðneska og ójarðneska takta – samgróna mannlegum reynsluheimi, og þrívíð fyrirbæri með ljósmyndum, teikningum og höggmyndalist. Gausmann nálgast þessi fyrirbæri á forsendum þrívíðra verka sem hún titlar „dansandi deig og kringumstæður“. Með verkinu í heild vísar hún í síbreytileika lögunar og hreyfingar jarðskorpnunar sem mannfólkið kemst aldrei hjá því að verða fyrir áhrifum af. Á meðan á vinnustofudvöl Gausmann í Skaftfelli stóð helgaði hún tíma sínum í að kynna sér einstaka sögu og mikilfenglega landafræði austfjarða. Hún kynnti sér fjöllin og grjótið umhverfis Seyðisfjörð og gerði lágmyndir og frottage og notaði til þess latex og pappír. Ferillinn var bæði líkamlega erfiður og tímafrekur og krafðist ítrekaðra ferðalaga á sömu staðsetningar. Niðurstaðan sem hér birtist er röð svarthvítra, áferðarþungra prentverka á pappír, gagnsæjan pappír og plexígler. Með því að beina sjónum sínum sérstaklega að örsmáum smáatriðum býður Gausmann uppá nýja leið til að skynja umhverfið, bæði í samhengi við æviskeið mannverunnar, sögu jarðar og takt himingeimsins. Hún sýnir einnig upphaflegu latex lágmyndirnar, bæði á vegg og hangandi úr loftinu. Framandi efnið breytist í náttúruleg, næstum þekkjanleg form sem geyma agnir af mosa og grjóti.

Á tímabilinu einbeitti Ráðhildur Ingadóttir sér að tveimur mismunandi verkefnum. Ráðhildur hefur í fjölda ára notast við ullarreyfi í listsköpun sinni, efniviði úr nærumhverfinu sem að miklu leyti er hent af seyðfirskum bændum. Hún þróaði aðferð til að fullvinna íslensku ulllina og rannsaka hvort hægt væri að vinna úr henni hágæða þráð án þess að blanda við erlenda ull. Í samstarfi við bændur úr firðinum safnaði hún ullarreyfi frá mismunandi árstíðum. Hún handþvoði ullina varlega í fiskikerum, þurrkaði undir beru lofti og prófaði sig áfram til að finna þá hluta reyfisins sem best er að vinna úr. Niðurstaða efnisrannsókna hennar var sú að vel er hægt að vinna gæðaþráð úr óblönduðu íslensku ullarreyfi. Einnig urðu til ýmsir munir og skúlptúrar í vinnuferlinu og hún hefur gert margar innsetningar úr ull sem sýndar hafa verið á Íslandi og Evrópu. Oftast hefur hljóð fylgt innsetningunum, og stundum video. Meðan á þessari vinnu stóð kynntist Ráðhildur Svandísi, nær níræðum bónda í firðinum. Vinskapur tókst smám saman með konunum tveim og Ráðhildur hóf að taka upp daglegt líf og störf Svandísar á meðan á samtölum þeirra stóð. Í sýningarsal Skaftfells samanstendur innsetning Ráðhildar af samsetningu ullareyfis sem á er varpað völdum bútum úr upptökuferlinu og af samskiptum hennar og Svandísar. Einnig eru tveir skúlptúrar unnir úr ullarreyfi, ullarþræði og steinum úr Loðmundarfirði.

Skömmu eftir fyrri vinnustofudvöl Richards Skelton í Skaftfelli hóf hann að skrá athuganir sínar á netinu undir titlinum Að endimarki, www.towardsafrontier.wordpress.com. Hann gerði svo samsettar myndir og bókverk með sama titli, sem sýna úrval myndefnis og texta sem hann safnaði frá ýmsum heimildum á meðan hann dvaldi á Seyðisfirði. Áhugi hans á vatni og umfjöllunarefnum því tengdu leiddu til þess að hann gerði stuttmyndina Leitin að ellefta tilbrigðinu, þar sem skandínavískar hugmyndir um vatn og heiðni, trúarbrögð og íslenskar vatnsvirkjanir eru kannaðar. Nýji Rauði Listinn er textaverk sem er að hluta til gert undir áhrifum frá Birgi Andréssyni listamanni. Verkið veltir upp spurningum um yfirborðskennd flokkunarkerfa. Skelton raðar a saman af hendingu ættar- og tegundaheitum af lista IUCN, sem nefndur er Rauði listinn yfir tegundir í útrýmingarhættu. Við það verður til nýr, ómögulegur listi yfir blendinga sem ekki gætu orðið til í veruleikanum. Miðstöð annarskonar rannsókna CFAS, varð til árið 2016 þegar Skelton gerði tilraun til að búa til tengslanet á milli listamanna og fræðimanna sem fjalla um hluti sem ekki tengjast neinu mannlegu beint heldur nota dýra- og plönturíkið og efnivið af jarðfræðilegum toga sem umfjöllunarefni. Nýjasta verk Skeltons, og kannski það persónulegasta er stuttmyndin Engin mörk. Myndin er sjón- og hljóðræn framsetning á þeim andlegu áhrifum sem ferðalög, umhverfisbreytingar, afskekktir staðir og einangrun hefur á fólk.

Tinna Guðmunds

Fyrri áfangar í verkefninu:

Kynning, júní 2016: Í vinnslu

Málþing, maí 2016: Verkfæri til sjálfsbjargar á hjara veraldar

Um listamennina:

Exif_JPEG_PICTURE
Kati Gausmann: Mountain print, detail, 2014.

Kati Gausmann býr og starfar í Berlín. Kati er skúlptúristi og verk hennar hverfast um hreyfingu, takt og athöfn sem umbreytast í form. Vinnuferlið byggist á því að sameina efnisrannsóknir og hvernig hægt sé að teikna, búa til innsetningu og gjörninga með efninu. Listrænir leiðangar og fræðileg nálgun er mikilvæg í hennar sköpun. Kati hefur sýnt, m.a. með samstarfshópnum msk7 og sjálfstætt, víðsvegar í Þýskalandi og Kling og Bang í Reykjavík. Á meðan hún tók þátt í Frontiers in Retreat var hún með skissubók á netinu: https://katigausmann.wordpress.com

eleventhmeasure-2017
Richard Skelton, Eleventh Measure

Richard Skelton er frá norður Bretlandi. Verk hans eru undir áhrifum frá landslagi, allt frá djúpskoðun á ákveðnu umhverfi og víðtækum rannsóknum m.a. á örnefnafræði og tungumáli, vistfræði og jarðfræði, þjóð- og goðsögum. Síðasta áratug hefur Richard unnið með texta, bókverk, kvikmyndaformið og tónlist. Nýlega hefur hann fengið mikinn áhuga á að nota aðferðir sýningarstjórnunar til að kanna and-sögulegar frásagnir. Ásamt því að reka Corbel Stone Press með kanadíska ljóðskáldinu Autumn Richardson, er hann stofnandi the Notional Research Group for Cultural Artefacts og the Centre for Alterity Studies.

/www/wp content/uploads/2017/03/ri fir image
Ráðhildur Ingadóttir, Hægt og bítandi, Seyðisfjörður, 2014-2016

Ráðhildur Ingadóttir býr og starfar í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hún nam myndlist í Bretlandi 1980 til 1986 og hefur verið mjög virk síðan þá. Í listsköpun sinni vinnur Ráðhildur með texta, teikningar, veggverk, skúlptúra og videó og oft koma ólíku miðlarnir saman í stærri innsetningu. Undanfarin ár hefur Ráðhildur sýnt mikið í Evrópu og var stundakennari í Listaháskóla Íslands 1999-2002. Hún var einnig stundarkennari í Konunglega Listaháskólanum, sat í stjórn Nýlistasafnsins um skeið og sýningarstýrði fyrir safnið og annarsstaðar. Á árunum 2012-2014 var hún listrænn heiðursstjórnandi Skaftfells. Ráðhildur hefur þegið bæði viðurkenningar og styrki á Íslandi og í Danmörku.

Nánar um sýningarröðina

Þrátt fyrir að landamörk geti valdið óróa eru þau á sama tíma staður umskipta og tenginga. Fjölbreytileiki er yfirleitt ríkulegastur á svæðum þar sem ólík vistkerfi mætast. Þetta eru svokölluð jaðaráhrif. Stefnumót sem skilja engan eftir ósnortinn.

Sjö gestavinnustofur á endimörkum Evrópu hafa verið kallaðar saman til fimm ára alþjóðlegs samstarfs sem ber titillinn Hörfandi landamörk eða Frontiers in Retreat 2013–2018 og snýst um fjölbreyttar, listrænar og þverfaglegar aðferðir. Það má líta á þessar sjö afskekktu staðsetningar sem endimörk þar sem samlíf mannfólks, annarra lífvera og náttúrunnar verður áþreifanlegt. Staðirnir geta gefið innsýn í samtvinnað ferli vistkerfa og umhverfis-, félags- og hagfræðilegra umbreytinga, bæði með staðbundnum birtingamyndum og á hnattrænum skala.

Verkefnið kortleggur listrænar nálganir sem bregðast við umhverfisvánni auk þess að taka til skoðunar hvernig má leitast við að skilja og skilgreina margþætta aðferðarfræði sem ætlað er að taka á umhverfismálum. Alls var 25 listamönnum boðið að vinna rannsóknarvinnu og gera ný verk sem bregðast við umhverfinu og sértækum vistkerfum. Rannsóknarefni þeirra spanna fjöll, firði, skóga, eyjar, þorp, bæi og borgir á Íslandi, í Finnlandi, Skotlandi, Lettlandi, Litháen, Serbíu og á Spáni.

Í stað þess að dvelja við fyrirfram ákveðnar kenningar, hugmyndir og aðferðir eru hér að verki fjöldi radda og skoðana, sjónarhorna og aðferða. Frá því að verkefnið hófst hafa þátttakendur, bæði listamenn og stofnanir, sett spurningamerki við upphaflegan grundvöll þess og veitt því hugmyndafræðilegt aðhald þannig að fjölbreytileikinn hefur enn vaxið: Sannkölluð jaðaráhrif að verki.

Árið 2017 mun Hverfandi landamörk standa að sýningarröð sem ber einmitt titilinn Jaðaráhrif. Sjö tengdar sýningar vefa saman landafræðilega aðskilda aðferðafræði og lykilumræður sem hafa þróast undanfarin fjögur ár. Auk þess að endurspegla sameiginlega þætti sem og það sem ber á milli hverrar staðsetningar mun umræðan færast í nýtt samhengi á samsýningu í Art Sonje miðstöðinni in Seúl.

Með því að skapa vettvang sameiginlegrar rannsóknar hefur verkefnið fært sjö einangraða staði nær hvorum öðrum á hnettinum. Í stað hefðbundinnar kortagerðar hefur ferlið tekið á sig einskonar dýpri kortlagningu, þ.e.a.s. með því að takast á við sértæka staðhætti hvers staðar hafa þátttakendur einnig upplýst um flókin samverkandi öfl sem móta ferli og hegðun íbúanna, bæði manna og annarra lífvera, og ferðamynstur á hnattrænum skala.

Í kjarna þessara tveggja verkefna, Hörfandi landamörk og Jaðarhárhrif 2017-2018, er varpað fram áríðandi spurningu um skilgreiningar landamæra og marka og um leið leitað að nýju módeli sem gæti breytt ríkjandi lifnaðarháttum og fundið upp nýjar leiðir sem víkja frá lífstíl sem krefst jarðeldsneytis, lífstíll sem hvort eð er, er að endimörkum kominn. Þessi tvö markmið eru höfð til hliðsjónar en einnig er haft í huga að listir ber ekki að nota til að eltast við einfaldar lausnir á flóknum málum. Listir geta leitt í ljós núninga í gildismati okkar sjálfra, borið upp spurningar sem raska viðteknum gildum og skapa rými fyrir íhygli og samtal. Á meðan verkefnið heldur áfram að þróast í formi opins vettvangs sem kvíslast meira og meira út og þenur mörkin meira og meira má búast við enn frekari ófyrirséðum jaðaráhrifum.

Jenni Nurmenniemi, sýningarstjóri hjá HIAP – Helsinki

Taru Elfving, Sýningarstjóri, hvatamaður verkefnisins og ráðgjafi.

Samstarfsaðilar: HIAP í Finnlandi, Mustarinda í Finnlandi, Scottish Sculpture Workshop SSW í Skotlandi, Interdisciplinary Art Group SERDE í Lettlandi, Cultural Front – GRAD í Serbíu, Centre d-Art i Natura de Farrera á Spáni og Jutempus í Litháen.

Verkefnið er fjármagnað með styrk úr Menningaráætlun ESB, Myndlistarsjóði, Sóknaráætlun Austurlands, Seyðisfjarðarkaupstað, Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *