Litlir heimar

Listamannaspjall og opnar umræður um áhrif ferðamannaiðnaðarins á Seyðisfjörð.

Þar sem vöxtur ferðamannaiðnaðarins á Íslandi er einn sá hraðasti í heiminum í dag er það orðið brýnna en nokkur sinni fyrr að ræða möguleg áhrif erlendra ferðamanna á íslenska menningu. Að vissu leyti má líta á ferðamannaiðnaðinn sem leið til að varðveita menningu, auka hagvöxt og bæta lífsskilyrði samfélagsins, en hvað er í húfi? Hvernig getur lítill staður eins og Seyðisfjörður haldið sérkennum sínum og sjarma á sama tíma og gríðarlegur fjöldi ferðamanna sækir hann heim?

Þriðjudaginn 9. ágúst n.k. mun Jessica Auer, gestalistamaður í Skaftfelli, deila með gestum myndrænni rannsókn sinni á áhrifum ferðamannaiðnaðarins víðsvegar um heiminn og fjalla um hvernig sjálfsmynd þessara staða hefur breyst með auknum straumi ferðamanna. Í kjölfar kynningarinnar verður gestum boðið til umræðu um það hvernig Seyðfirðingar geta haldið áfram að byggja upp ferðamannaiðnaðinn í bænum en á sama tíma varðveitt og virt samfélagið og menningu þess.

Jessica Auer er kanadískur myndlistamaður og ljósmyndari. Í verkum sínum fæst hún við rannsóknir á landslagi sem menningarfyrirbæri með áherslu á temu sem tengja saman sögu, staði, ferðalög og menningarlega reynslu. Jessica lauk MFA prófi í myndlist frá Concordia háskólanum 2007 og hefur síðan sýnt verk sín víða, jafnt innan Kanada sem utan. Sem sannur flakkari hefur hún tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum gestavinnustofum, s.s. í Banff miðstöðinni í Alberta, Kanada, The Brucebo Travel Residency í Gotlandi, Svíþjóð, The Chilkoot Trail AIR í Alaska og Yukon og Bær listamiðstöðinni á Höfðaströnd. Þegar Jessica er heima hjá sér í Montreal kennir hún ljósmyndun við Concordia háskólann.

Íbúar Seyðisfjarðar er hvattir til að koma á kynninguna og taka þátt í umræðum um framtíð samfélagsins í ljósi aukins ferðamannastraums.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *