Sauðburður

Sýningin er hluti sýningaraðarinnar “Réttardagur 50 sýninga röð” sem hófst 21. júní 2008 og líkur 23. júní árið 2013. Fyrirhugað er að setja upp 50 ólíkar sýningar á tímabilinu víða um heim. Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á menningu landans sem hlýst af sauðkindinni, ekki fyrir 70 árum heldur nú á líðandi stundu. Samhliða munu sýningarnar varpa ljósi á þróun og áherslur í verkum Aðalheiðar.

Á hraða nútíma samfélags gleymist stundum að líta til baka og skoða hvaðan við erum komin. Nú þegar efnahagskerfi Íslands er í molum er enn mikilvægara að læra og rifja upp hvað það er sem skiptir máli í lífinu.

Bændur hafa ólíkt mörgum öðrum starfsstéttum verið með fæturna á jörðinni og ávallt í nánum tengslum við náttúruna. Það er áhugavert að kanna alla fleti sveitamenningarinnar og hvert hún getur leitt okkur. Hvað er það í nútíma samfélagi sem á rætur sínar að rekja til sveitanna.

Þær sýningar sem ég hef sett upp í verkefninu hafa vakið fólk til umhugsunar og margir haft á orði að tilfinningin sé eins og að hitta kærkominn vin. Eða erum við að hitta fyrir okkur sjálf, líklega blundar sveitamaður í okkur öllum.

Ég hef á fyrstu sex sýningunum fjallað um sjálfan Réttardaginn þegar fé er smalað af fjalli, réttarkaffið, sláturhúsið, þorramatinn og frávikin frá norminu sem sýnir sig t.d. á tvíhöfða kind. Í bókabúðinni mun ég fjalla um sauðburð.

Ætlunin er að vinna í ólíka miðla hvað eina sem fyllir hugan út frá þemanu réttardagur. Einnig hef ég gaman af að bjóða öðrum listamönnum sem eru að fjalla um svipað efni, þátttöku í sýningum mínum.

Á undanförnum árum hef ég að mestu verið að kanna fundið og afgangs hráefni, timbur, húsmuni, járnadót og því um líkt. En ýmsir miðlar heilla mig og möguleikarnir óendanlegir.

Myndir af verkum og allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.freyjulundur.is

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir fæddist á Siglufirði 23.júní 1963 og bjó þar til 1986, þá fluttist hún til Akureyrar. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1989-93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að vera athafnasamur myndlistamaður. Í átta ár starfrækti Aðalheiður galleríið Kompuna og hefur staðið fyrir 76 menningarviðburðum “ Á slaginu sex “. Árið 2000 hóf Aðalheiður þátttöku í Dieter Roth akademíunni og mun halda þeirri samvinnu áfram. Aðalheiður hefur tvívegis hlotið starfslaun frá ríki og bæ. Var þátttakandi í uppbyggingu Listagilsins á Akureyri og er í stjórn Myndlistafélagsins og Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Undanfarin fjögur ár hefur Aðalheiður búið og starfað í Freyjulundi í nágrenni Akureyrar.

Hljóðmynd sýningarinnar SAUÐBURÐUR er eftir Mirjam Blekkenhorst

 

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *