Gavin Morrison ráðinn sem forstöðumaður Skaftfells

Stjórn Skaftfells tilkynnir með ánægju að Gavin Morrison hefur verið ráðinn sem forstöðumaður Skaftfells – myndlistarmiðstöð Austurlands. Gavin mun taka við stjórn miðstöðvarinnar í byrjun nóvember af Tinnu Guðmundsdóttur sem hefur verið við stjórnvölinn síðan í ársbyrjun 2012.

„Stjórn Skaftfells er mikil ánægja að bjóða til starfa Gavin Morrison og telur það mikill akkur fyrir stofnunina að fá til liðs við sig manneskju með svo yfirgripsmikla þekkingu á myndlistarheiminum. Auk þess að hafa mikla alþjóðlega reynslu á sviði sýningarstjórnar þá hefur Gavin reynslu af störfum með fjölmörgum íslenskum listamönnum. Stjórninni þótti áhugavert að fá manneskju með slíka reynslu til að útvíkka og styrkja alþjóðleg tengsl stofnunarinnar.” Auður Jörundsdóttir, formaður stjórnar.

Gavin hefur margsinnis komið til Seyðisfjarðar og þjónaði sem heiðursstjórnandi Skaftfells á árunum 2015-2016. Á þeim tíma sýningarstýrði hann sýningunum Eyborg Guðmundsdóttir & Eygló Harðardóttir;  Ingólfur Arnarsson & Þuríður Rós Sigurþórsdóttir, Ófrumlegt: afritun, fjölritun og ritstuld í list og hönnun, auk einkasýninga Hönnu Kristínar Birgisdóttur og Sigurðar Atla Sigurðssonar. Gavin er skoskur en hefur síðustu ár verið búsettur í Suður-Frakklandi þar sem hann vinnur sem sýningastjóri og rithöfundur. Hann hefur unnið í samstarfi við ýmsar stofnanir víðsvegar um heiminn og má þar nefna Konunglega listaháskólann í Stokkhólmi, Listasafn Houston, Osaka samtímalistastofnunina í Japan og Háskólann í Edinborg, Skotlandi.

„Mér finnst mjög áhugavert hversu stóru hlutverki Skaftfell gegnir fyrir Seyðisfjörð sem menningar, félagsleg og fræðslumiðstöð fyrir samfélagið og gesti.” Segir Gavin.  „Þátttaka miðstöðvarinnar í margbreytilegu alþjóðlegu menningarlífi í samspili við nærumhverfið er heillandi. Sem forstöðumaður mun ég halda áfram þessari nálgun og setja saman dýnamíska dagskrá sem eflir alþjóðlegt mikilvægi miðstöðvarinnar en á sér á sama tíma rætur í staðbundnu samhengi.”

Starfsemi Skaftfells er helguð samtímamyndlist á alþjóðavísu. Í Skaftfelli er öflug sýninga- og viðburðadagskrá, gestavinnustofa fyrir listamenn og fjölþætt fræðslustarf. Sýningarhald hefur verið öflugt og fjölbreytt með áherslu á vandaða blöndu af framsækinni samtímalist og hefðbundnari listsýningum, ýmist eftir innlenda eða erlenda listamenn.

Vefsíða Gavin: www.gavinkmorrison.com

Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *