Jessica Auer & Zuhaitz Akizu – Kujira (Hvítur Hvalur)

Ný verk eftir Jessicu Auer og Zuhaitz Akizu á gallerí Vesturvegg í Bistrói Skaftfells. Verið velkomin á opnun 17. júní kl. 17:00-19:00.

Sýningin stendur til 25. október, 2019.

Fyrir um 400 árum teiknaði fræðimaðurinn og skáldið, Jón lærði Guðmundsson (1574-1651), 20 mynda teikniseríu af hvölum sem finna mátti í kringum Ísland. Enn er það mönnum ráðgáta hvernig honum tókst að aðgreina hvern hval fyrir sig en hægt er að ímynda sér að hann hafi náð að afla sér þekkingar í tengslum við hvalveiðar sem áttu sér hér stað á þessum tíma.  

Innblásin af skissum Jóns lærða og kveikjuna á bakvið teikningarnar hans, og með það í huga að læra meira um framsetningu á hvölum í listum, ferðuðust listamennirnir Jessica Auer og Zuhaitz Akizu til Japan sem á sér menningarlega inngrónar hefðir í kringum hvalveiðar. Hvalir og hvalveiðar hafa í gegnum tíðina verið settar fram í myndrænu formi í japönskum teikningum, tréristum og vatnslita skrollum. Þessi verk voru gerð af gífurlegri færni og hafa verið varðveitt af umhyggju og í þeim skynjar maður vissa lotningu sem fólk ber fyrir þessum skepnum.

Þessar teikningar eru frá tímum þegar heimurinn skiptist í hið þekkta og hið óþekkta. Nú til dags eru vinsælar myndir af hvölum gerðar í tengslum við hvalaskoðunarferðir fyrir ferðamenn eða með háþróuðum neðansjávar myndavélum eða flygildum. Á sama tíma er sífellt verið að birta ógeðfelldar myndir af hvalveiðum í þeim tilgangi að mótmæla þeim. Það skiptir ekki máli hver afstaða okkar gagnvart hvölum er; samband okkar við þá hefur breyst gífurlega. 

Verkefnið, sem samanstendur af ljósmyndum, cyanotype prenti (prentaðferð sem gefur myndunum einkennandi bláan lit) og myndbandi, varð að veruleika við vinnustofudvöl í Japan í desember 2018, sama ár og Japan dró sig út úr Alþjóða hvalveiðiráðinu í þeim tilgangi að halda áfram hvalveiðum innan sinnar lögsögu. Með verkinu er gerð tilraun til að rannsaka brotakennt samband milli mann og hvala, og sérstök áhersla lögð á hval sem fæðu.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *