Nýr forstöðumaður Skaftfells: Pari Stave

Stjórn Skaftfells kynnir með ánægju að Pari Stave hefur verið ráðin nýr forstöðumaður Skaftfells, Myndlistarmiðstöð Austurlands. Hún tekur til starfa 1. maí næstkomandi. Síðastliðin tvö ár hafa Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og Julia Martin deilt forstöðu yfir miðstöðinni. Hanna Christel lætur af störfum 1. júlí nk. en Julia mun starfa áfram hjá Skaftfelli með umsjón yfir alþjóðlegum verkefnum Skaftfells og gestavinnustofu.

Pari Stave starfaði síðastliðin átta ár hjá Metropolitan safninu í New York þar sem hún sinnti stöðu sem yfirmaður stjórnsýslu-, safna- og sýningarstjóraverkefna í nútíma- og samtímalistadeildinni. Þar á undan starfaði hún sem sýningarráðgjafi fyrir American-Scandinavian Foundation (AFS). Pari er menntaður listfræðingur og sýningarstjóri og hefur komið að fjölda sýninga þeirra á meðal Ragnar Kjartansson: Death is Elsewhere sem hún vann í samvinnu með Jennifer Farrel og var fyrst sýnd í Metropolitan 2019. Hún sýningarstýrði Other Hats: Icelandic Printmaking ásamt Ingibjörgu Jóhannsdóttur fyrir Print Center í New Yourk og var síðar sýnd á Listasafni Íslands 2018. Árið 2017 skipulagði hún og skrifaði sýningarskrá fyrir sýninguna Hverfing|Shapeshifting í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Hjá ASF stýrði hún ásamt Patriciu C. Berman sýningunni Munch|Warhol and the Multiple Image sem ferðaðist til Ankara árið 2013 í tilefni af fyrstu heimsókn konungshjóna Noregs til Tyrklands. Hún starfaði auk þess með Timothy Person við sýninguna New Wave Finland: Contemporary Photography from the Helsinki School. Árið 2013 sýningarstýrði hún samsýningunni Iceland: Artists Respond to Place á Katonah Listasafninu í New York.

Við óskum Pari til hamingju og hlökkum til að fá hana til samstarfs.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *