Listamannaspjall: Ji Yoon Jen Chung og María Sjöfn Dupuis Laufeyjardóttir

Þriðjudaginn 7. mars 2023, kl. 17:00 – 18:00, Skaftfell 3. hæð

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á kynningu á verkum og hugleiðingum tveggja núverandi gestalistamanna Skaftfells:

Ji Yoon Jen Chung er suður-kóresk listakona og kennari. Í verkum sínum einblínir hún á ósýnilegar breytingar sem við tökum alla jafna ekki eftir, þykir sjálfsagðar og gleymum. Tilraunir hennar til að varðveita hverful og óumflýjanleg fyrirbæri renna oft saman í verkum hennar. Listræn iðkun hennar er sprottin upp af breytingum auk þess sem hún sýnir samúð með hverfulli nærveru. Slík iðja tekur tíma og tekur mið af missi.

Ji Yoon er með MFA gráðu frá Rhode Island School of Design in Digital+Media (2020) og M.Ed gráðu frá Harvard Graduate School of Education in Learning Design, Innovation, and Technology (2022). Hún starfar nú sem aðjúnkt við Seoul Women’s University og myndlistakennari við Seoul National University Children’s Hospital School. Hún fékk styrk til gestavinnustofur SÍM og Skaftfells frá Arts Council Korea.

María Sjöfn Dupuis Laufeyjardóttir vinnur í mismunandi miðla og oft með náttúruleg fyrirbæri sem taka á sig mynd sem innsetningar, í þrívíð form sem skúlptúrar, video-innsetningar og teikningu. Í verkum sínum fjallar hún um fjölþætta skynjun umhverfisins með innsýn í innra og ytra samhengi rýmis og efnis. Hún er að kanna snertifleti manns og umhverfis á gagnrýninn hátt í marglaga þekkingarsköpun og skoðar myndmálið sem á stundum veitir ný sjónarhorn.

Hún lauk M.A. gráðu frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2020 og M.A. diplóma gráðu í listkennslufræðum árið 2014 frá sama skóla og starfar sem kennari við Myndlistarskólann í Reykjavík. Hún er sem stendur í vinnustofudvöl á Skaftfelli þar sem hún er að kanna stað og rými. Meðal annars vinnur hún með sjóinn sem efnivið þar sem leifar af söltum sjó á pappír skilja eftir sig teikningu í myndræn form og rými sem myndast með ljósbroti hverju sinni úr umhverfinu.

 

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *