Vesturveggur: Zuhaitz Akizu – Skrítið Skraut

Zuhaitz Akizu: Skrítið Skraut

Verkin á sýningunni Skrítið Skraut eru úr persónulegu safni Zuhaitz Akizu. Zuhaitz safnar, umbreytir og setur saman hluti og efnivið sem hann heillast af. Stundum taka hlutirnir á sig mynd á nokkrum sekúndum, þó þeir hafi verið í gerjun í langan tíma. Aðrir hafa tekið mörg ár að ná þeim stað þar sem þeir geta ekki þróast frekar. Hugmyndirnar og hugtökin á bak við þessar fagurfræðilegu hrifningar halda hinsvegar áfram að þróast í hvert sinn sem Zuhaitz tekur sér eitthvað nýtt fyrir höndum.

Zuhaitz finnur húmor á óvenjulegum stöðum þar sem ferlið er hvorki línulegt né fyrirsjáanlegt. Eins og fornleifafræðingur sem afhjúpar falda fjársjóði voru þessir oftar en ekki hversdagslegu hlutir og efni alltaf til staðar, en það þarf forvitið auga til að finna þá. Í þessu nýja fyrirkomulagi sem skraut taka þeir á sig nýjar myndir.

Sýningin Skrítið Skraut á Vesturvegg Skaftfells leitast við að kveikja forvitni, hvetja til hugmynda og bjóða upp á aðra leið til að skoða eitthvað af hrifningu.

Zuhaitz Akizu kemur frá Baskalandi, þar sem hann ólst upp á lífrænum bóndabæ með súrdeigsbakaríi. Hann lærði sögu og fornleifafræði, og eftir að hafa unnið á nokkrum söfnum í Baskalandi kom hann til Íslands til að rannsaka sögu baskneskra hvalveiðimanna á Íslandi. Hann settist svo seinna að á Seyðisfirði og hefur síðan tekið þátt í LungA skólanum, unnið hjá Skálanesi Rannsóknar- og Menningarsetri og hjá Tækniminjasafni Austurlands. Ásamt maka sínum Jessicu Auer stofnaði hann Ströndin Studio, sem helgar sig rannsóknum og menntun á sviði ljósmyndunar. Zuhaits stundar nú nám í skartgripagerð í Montreal.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *