Um fræðslustarf Skaftfells

Skaftfell sinnir fræðslustarfi fyrir börn, ungmenni og fullorðna bæði á Seyðisfirði og fjórðungsvísu.

Lisfræðsluverkefni Skaftfells

Listfræðsluverkefni Skaftfells 2024 "Trunt, trunt, tröll og allar aðrar landsins vættir" hannað og kennt af Solveigu Thoroddsen


Árið 2007 hafði Skaftfel frumkvæði að markvissu fræðslustarfi sérsniðnu að þörfum grunnskólanna á Austurlandi. Miðstöðin hefur síðan þá boðið upp á listfræðsluverkefni sem fjallar um myndlist og sköpun með einum eða öðrum hætti til að auðga listgreinakennslu í fjórðungnum. Ennfremur hefur miðstöðin unnið náið með Seyðisfjarðarskóla í fjölda ára og sá m.a. um myndmenntakennslu fyrir elstu nemendur skólans á tímabilinu 2009-2017.
Listfræðsluverkefni Skaftfells hafa síðustu ár verið hluti af BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi á haustin og í samstarfi við List fyrir Alla. Verkefnin eru hönnuð og kennd af starfandi listamönnum og eru boðin skólum á Austurlandi og Norðausturlandi að kostnaðarlausu. Venja er að annað hvert ár tengist verkefnið sýningu í Skaftfelli og er þá nemendum boðið í heimsókn á Seyðisfjörð þar sem þau vinna verkefni um sýninguna og fá leiðsögn. Hin árin ferðast verkefnin á milli skóla. 

Samstarf við Listaháskóla Íslands 


Dieter Roth Akademían: Á tímabilinu 2001-2018 stóð Dieter Roth Akademían, ásamt Listaháskóla Íslands, fyrir árlegu námskeiði fyrir útskriftarnemendur myndlistardeildar sem bar heitið Vinnustofan Seyðisfjörður. Á þessum námskeiðum var allur bærinn opnaður fyrir nemendunum og unnu þeir náið með starfsmönnum ýmissa verkstæða og fyrirtækja í bænum að verkum sínum sem þau enduðu með að sýna í Skaftfelli. Samstarfsaðilar voru m.a. Tækniminjasafn Austurlands og Stálstjörnur.

Prentvinnustofan: Árin 2019 – 2023 var stofnað til nýs samstarfsferkefni milli Skaftfells og Listaháskóla Íslands með sama fyrirkomulagi og Vinnustofan Seyðisfjörður en hins vegar með áherslu á prentmiðilinn. Nemendur frá LHÍ komu og dvöldu á Seyðisfirði í tvær vikur og nýttu sér prentaðstöðu sem í boði er í frðinum auk þess sem hópurinn setti upp færanlega prentaðstöðu í sýningarsal Skaftfells sem var jafnframt vinnuaðstaða þeirra. Dvöl þeirra lauk svo með sýningu í sýningarsalnum sem stendur í nokkrar vikur. Áhersla var lögð á að nemendur nýttu tímann til að öðlast dýpri skilning á prentferlinu og kynnast lykilhugmyndum við útfærslu prentverka undir handleiðslu starfandi myndlistarmanna og sérfræðinga í grafík. Leiðbeinendur Prentvinnustofunnar voru Sigurður Atli Sigurðsson, myndlistarmaður og kennari við LHÍ.

Vinnustofan Seyðisfjörður: frá 2024 hefur upprunalegt fyrirkomulag Dieter Roth Akademíunnar verið notað sem innblástur í nýja vinnustofu þriðja árs myndlistarnema frá LHÍ undir handleiðslu Gunnhildar Hauksdóttur sem sjálf tók þátt í fyrstu Vinnustofu Seyðisfjarðar með Dieter Roth Akademíunni í Skaftfelli árið 2001. Nemendur dvelja á Seyðisfirði í tvær vikur og vinna að uppsetningu sýningar. Þau heimsækja fólk og fyrirtæki í bænum og fá innblástur og aðstoð við gerð nýrra verka.

Vinnustofan Seyðisfjörður 2025

Leiðsagnir


Skaftfell býður skólum og öðrum hópum velkomin upp á leiðsagnir um sýningar í sýningarsal Skaftfells. Fræðslufulltrúi Skaftfells sér um leiðsagnir og hægt er að bóka þær gjaldfrjálst með því að hafa samband við fraedsla@skaftfell.is. Skaftfell á í nánu sambandi við Seyðisfjarðarskóla og koma nemendur reglulega í heimsókn á sýningar.

Prentnámskeið 


Í samstarfi við Prentverk Seyðisfjörður stendur Skaftfell reglulega fyrir prensmiðjum fyrir börn og unglinga í hinum mismunandi aðferðum prenttækninnar. Skaftfell hefur einnig hafið samsarf við Menntaskólan á Egilsstöðum sem kemur nú á haustin í tengslum við BRAS og nýtir sér aðstöðuna sem hluti af listkennslu í skólanum.

Aðrar smiðjur og námskeið fyrir börn og fullorðna

Skaftfell býður upp á einstakar smiðjur fyrir bæði fullorðna og börn í tengslum við viðburði, gestavinnustofur eða sýningar.

Listamannaspjöll

Skaftfell stendur fyrir listamannaspjöllum þar sem gestalistamenn Skaftfells kynna fyrir almenningi það sem þau eru að vinna á meðan á dvöl þeirra stendur. Þessir viðburðir eru gjaldfrjálsir.

Viðburðir og námskeið eru auglýst á heimasíðu Skaftfells og á samfélagsmiðlum. Einnig mælum við með að skrá sig á póstlista Skaftfells til að fá mánaðarlegt fréttabréf með öllum viðburðum sem á dagskrá eru.