BRÚ Í POKA/BRIDGE IN A BAG

15 feb 2007 – 18 mar 2007
Vesturveggur

Bjarki Bragson dvaldi í febrúar í listamannaíbúð Skaftfells, og verkefnið um brúnna er unnið á Austurlandi. Bílaleiga Akureyrar styrkti gerð verkefnisins. Verkið á Vesturveggnum er vídeó-innsetning og teikningar, en megininntakið eru tvær brýr, brúargólf í Bónuspoka, og þær merkingar sem settar eru á dauða hluti. Bjarki útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2006 og var einnig við nám í Universitat der Kunste í Berlín árið 2005. Í sumar mun hann ásamt 14 norrænum myndlistarmönnum standa að sýningunni “Miðbaugur og Kringla: Leisure, Administration and Control” sem á sér stað í Kringlunni og miðbænum samtímis.

Um Brúar-verkefnið segir Bjarki….

“…Það er áhugavert að velta fyrir sér hvaða efni hafa merkingu og þau hlutverk sem dauðir hlutir hafa. Brýr eru áhugaverð fyrirbæri. Þær liggja þvert á stríðandi strauma og maður getur skotist á milli árbakka, menningarheima eða hafið samtal við ókunnugann og reynt að brúa eitthvað bil. “Like a bridge over troubled water” segir einhversstaðar. Það sló mig í fyrrahaust þegar ég var staddur í rútu sem var að keyra yfir brúnna yfir Jökulsá á Brú við Kárahnjúka, að einmitt sú rúta var síðasti bíllinn sem fór þar yfir. Eftir að rútan kom yfir á hinn bakkann hófust menn handa við að búta niður þykkt gólfið og slá mannvirkið niður, en fáum dögum síðar sökk brúarstæðið í heljarstórt lón. Viku síðar var ég staddur á mel ofan við stíflustæðið og sá hrúgu af drasli. Var þar brúin í hundrað bitum. Ég valdi mér nokkra bita og stakk þeim í Bónuspoka.

Vakni von og kvikni
varmur neisti í barmi,
vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun hefjast brú til betri tíða,
brú til vonarlanda okkar lýða,
brú til frelsis, brú til mennta hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Árið 1891 samdi Hannes Hafstein ljóð um brúnna sem var reist yfir Ölfusá við Selfoss. Brúin var stærsta mannvirki landsins og með því opnuðust allar leiðir á Suðurlandi. Brúin hrundi 1944 og ´46 var komin ný brú sem stendur enn. Hann orti um brú vonanna. Brú til að ná í æðstu gæði mannlífsins. Árið 2002 var farið með sama ljóð um brúnna við Kárahnjúka. Eftir september tók ég brúargólfið upp úr innkaupapokunum gulu og þar blöstu við kubbar sem hver fyrir sig höfðu verið hlaðnir merkingu og vonum, einhverskonar brú yfir boðaföllin.”

Sýningin er opin frá 15.02.07-18.03.07, fim-sun frá 12-18, eða eftir samkomulagi.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *