TVÍSÖNGUR

Tvisongur_goddur_2013

Miðvikudaginn 5. september 2012 verður útilistaverkið Tvísöngur opnað almenningi í Þófunum ofan við Seyðisfjarðarkaupstað. Verkið er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne.

Byggingarefni Tvísöngs er járnbundin steinsteypa. Það samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og flatarmál verksins er rúmir 30 m2.

Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni.

Tvísöngur er öllum opinn. Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur.

Á opnuninni munu tónlistarmenn af svæðinu koma fram og mega opnunargestir mjög gjarnan leggja til eigin atriði.

Myndlist Lukasar Kühne snýst um samspil rýmis og tíðni. Hann býr í Berlín og Montevideo, Uruguay, þar sem hann stjórnar deildinni „Form og hljóð“ í myndlistarhluta Ríkisháskólans. Verkið á Seyðisfirði tengist verki hans „Cromatico“ sem er útilistaverk í Tallinn í Eistlandi, byggt árið 2011.

Kort af staðsetningu verksins

Byggingarferlið

Hægt er að skoða ljósmyndir frá byggingarferlinu hér.

Styrktaraðilar

Tvísöngur er unnið í samvinnu við Skaftfell – miðstöð myndlistar á Austurlandi.  Bakhjarlar þess eru Seyðisfjarðarkaupstaður, Goethe Institut í Danmörku og Nordecon Betoon, Eistlandi.  Það er styrkt af Síldarvinnslunni hf, Blue Water Shipping og Architect Rosario Nuin.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *