Heiða og Berglind – mæðginaferð

Tónlistarkonurnar Heiða Eiríks og Berglind Ágústsdóttir ætla að fara litla tónleikaferð um landið í byrjun júní. Þær spila báðar frumsamda tónlist sem flokka mætti sem tilraunakennda popptónlist á jaðrinum, en nálgast tónlistarflutning sinn á mjög ólíkan hátt. Heiða notast eingöngu við kassagítar og söng og leikur hæga og seigfljótandi þjóðlagatónlist, en Berglind notar tölvu og míkrafón og leikur tilrauna-partý-raftónlist.

Þær ákváðu að ferðast um Ísland í eina viku, og taka syni sína, 11 og 13 ára, með sér. Meðferðis verður líka tónlist á kasettum og geisladiskum sem þær ætla að kynna og selja.

Heiða og Berglind munu spila á Seyðisfirði Laugardaginn 8. júní í Bókabúðinni – verkefnarými.

Berglind Ágústsdóttir  er myndlistamaður og tónlistamaður og hefur hún nýlokið við sinn þriðja geisladisk sem ber heitið „I am your girl“. Á tónleikunum mun hún leika og syngja lög af honum, ásamt einhverjum lögum til viðbótar. Fyrir hefur hún gefið út plöturnar „Fiskur númer eitt“ sem kom út árið 1997,  „Vinir bjarga deginum“ árið 2010, vocal remix-diskinn „Aldrei of seint fyrir ást“ árið 2010 og hefur sungið inná fjölda geisladiska með öðrum böndum , ásamt hefðbundnu sýningahaldi. Einnig hefur hún nýhafið útgáfu á kasetturöð með tónlistarlegum tilraunum og út eru komnar tvær í þeirri röð.

Heiða Eiríks hefur notast við nafnið Heiða trúbador síðan árið 1989 þegar hún hóf að koma ein fram með kassagítar. Heiða trúbador er nú að vinna að sólóplötu með efni sem hentar einni rödd og einum kassagítar. Heiða hefur, frá árinu 1994, gefið út allmarga geisladiska með hljómsveitunum Unun, Heiðu og Heiðingjunum, Ruddanum og Hellvar, ásamt nokkrum sólóplötum. Hennar síðasta útgáfa var Hellvar-platan „Stop that noise“, sem kom út árið 2011. Hún vinnur þessa dagana að nýrri barnaplötu með Dr. Gunna.

Þessi ferð hlaut ferðastyrk frá Kraumi, tónlistarsjóði.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *