Bananas

Skaftfell hefur boðið danska listahópnum A Kassen gestavinnustofudvöl í júní og júlí. Gestavinnustofum Skaftfells er að ætlað að veita listamönnum tíma og rými til að upplifa, rýna í og kanna sköpunarferlið í frjóu og hvetjandi umhverfi.

Samhliða mun A Kassen sýna afrakstur dvalarinnar í aðalsýningarsal Skaftfells frá 17. júní – 1. sept.

Snemma á undirbúningsstigum fór A Kassen hópurinn að afla sér vitneskju um íslenska náttúru og menningu. Sér til mikillar furðu uppgötvuðu þeir að á suðurhluta Íslands er að finna stærstu banana plantekru í Evrópu. Ræktun hófst árið 1951 í Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi, rétt fyrir ofan Hveragerði. Bananarnir hafa verið ræktaðar þar óslitið síðan og er nú stýrt af Landbúnaðarháskóla Íslands. Árleg uppskera er um 100-120 klasar sem eru ræktaðir á 600-700 fermetra svæði. Gróðurhúsið er staðsett á jarðhitasvæði og notast er við jarðvarma og dagsbirtu við ræktunina. Listamönnunum fannst þetta framtak áhugavert hliðstætt við áliðnaðinn sem fyrirfinnst á Austurlandi. Þar er framleitt allt að 360.000 tonn af áli á ársgrundvelli með vatnsaflsorku, sem fæst með virkjum tveggja jökuláfljóta.

Bæði bananarnir og álið eiga það sameiginlegt að vera utanaðkomandi í íslenskri náttúru en jafnframt eru hin séríslensku náttúruöfl beisluð til að þjóna framleiðslunni. A Kassen ætla að styðjast við þessar staðreyndir sem útgangspunkt við vinnuferli sitt og á meðan dvöl þeirra stendur munu listamennirnir halda áfram hugmyndavinnu og þróa verk sín í sýningarsalnum. Þar af leiðandi mun sýningin taka breytingum á tímabilinu og haldin verður móttaka 27. júlí þegar vinnuferlinu lýkur.

Á tímabilinu fóru listamennirnir fór í vettvangsferðir til að rannsaka og skoða fyrirbærin nánar. Á Suðurlandi heimsóttu þeir Landbúnaðarháskóla Íslands og kynntu sér hvernig jarðhiti er notaður til að hita upp gróðurhúsin. Á Austurlandi keyrði hópurinn upp að Kárahnjúka virkjun og skoðuðu gljúfin, stífluna og lónið þar sem vatnsaflsorkan á uppruna sinn. Í kjölfarið héldu þeir til Alcoa Fjarðaál þar sem þeir fengu leiðsögn um álverið og kynningu á því hvernig vatnaaflsorkan frá Kárahnjúkum er notuð. Út frá þessum skoðunarferðum varð til prentefni með úrvali ljósmynda.

Umsjón er í höndum Ráðhildar Ingadóttur, listræns stjórnandi Skaftfells 2013-2014.

Umfjöllun

Þann 25. júní var innslag í Víðsjá, Rás 1, um verkefnið og tekið viðtal við Christian Bretton-Meyer, sem er meðlimur A Kassen: http://www.ruv.is/myndlist/bananar-og-al

Mánuði seinna fylgdi Víðsjá verkefninu eftir með innslagi, 25. júlí, og tekið viðtal við Tinnu Guðmundsdóttir forstöðukonu: http://www.ruv.is/myndlist/hvad-er-a-seydi-i-skaftfelli

Æviágrip

A Kassen er danskur listahópur sem hefur verið starfræktur síðan 2005. Meðlimir eru Christian Bretton-Meyer, Morten Steen Hebsgaard, Søren Petersen og Tommy Petersen. Þeir stunduðu allir nám á sama tíma í Konunglega danska listaháskólanum í Kaupmannahöfn og útskrifuðust árið 2007. A Kassen hafa verið mjög virkir í sýningarhaldi og hafa einu sinni áður sýnt á Íslandi, í maí 2012 þegar hópurinn var með einkasýningu í Kling & Bang gallerí, sem var hluti af Listahátíð í Reykjavík. Meðal síðustu sýninga má nefna “Secret Garden” í GL Holtegaard í Danmörku sumarið 2012 og sýningu í Gallery Nicolai Wallner í Kaupmannahöfn í apríl 2013. Framundan hjá hópnum er sýning í Centre Pompidou í París, febrúar 2014. Sjá vefsíðu hópsins fyrir nánari upplýsingar: www.akassen.com

Samstarfsaðilar og aðstoð

Verkefnið er unnið í samstarfi við og Tækniminjasafn Austurland og með aðstoð frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Alcoa Fjarðaál.

Styrktaraðilar

 
   

Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde

Dansk-íslenska sjóðurinn

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *