Home » 2011

Frásagnasafnið


Söfnunarmiðstöð Frásagnasafnsins opnaði í Skaftfelli 17. júní 2011

Kafli tvö: Frásagnir Strandamanna koma í Skaftfell 26. nóvember 2011, móttaka kl. 17:00. Sagnamennirnir Vigdís Grímsdóttir og Hallgrímur Helgason deila nokkrum sögum frá Seyðisfirði með gestum Skaftfells af sinni alkunnu frásagnagleði.

Skaftfell hefur tekið sér á hendur það yfirgripsmikla verkefni að safna frásögnum allra íbúa  Seyðisfjarðar. Svissnenski listamaðurinn Cristoph Büchel, listrænn stjórnandi Skaftfells árin 2011 og 2012, á frumkvæði að verkefninu. Verkefnið er unnið af Skaftfelli í samvinnu við Þjóðfræðistofu en söfnunin fer fram samtímis á Ströndum og á Seyðisfirði.

Það er einstakt að geta kortlagt endurminningar heils samfélags. Slík kortlagning veitir ekki einungis innsýn í það samfélag sem verður fyrir valinu heldur er það einstæð samtímaheimild. Heimild um mannlega tilvist, heimild um gang tímans, samspil kynslóðanna og þann grunn er liggur á bak við samtímann.

Söfnunin er í formi frásagna sem teknar eru upp á myndband, um er að ræða einskonar svipmyndir sem saman lagðar gefa heildstæða mynd af samfélaginu. Myndefnið er gert aðgengilegt í söfnunarmiðstöðinni í sýningasal Skaftfells jafn óðum og það verður til.