Fyrrum gestalistamenn Skaftfells í ljósmyndabók

Seyðisfjarðarkaupstaður stendur þessa dagana fyrir útgáfu á ljósmyndabók þar sem margar ljósmyndir eru teknar af fyrrum gestalistamönnum Skaftfells.

Lista- og hönnunarteymið  RoShamBo teymið sá um útfærslu og gerð bókarinnar fyrir Seyðisfjaðrarkaupstað. Þær lögðu upp með hugmyndina að ljósmyndabókin myndi verða eins konar persónulegt albúm bæjarbúa þar sem samansafn myndanna gæfi tilfinningu fyrir mannlífi og umhverfi með þeirra sjónarhorni. Því var efnt til ljósmyndasöfnunar meðal heimamanna og gesta Seyðisfjarðar og kallað eftir myndefni sem að þeirra mati þætti áhugavert, fallegt eða einkennandi fyrir Seyðisfjörð. Þar sem ljósmyndun almennings hefur aukist gríðarlega á síðustu árum kom ekki á óvart hversu mikill fjöldi mynda barst við söfnunina sem fór fram síðastliðið haust. Við val myndanna var horft til þess að ná fram Seyðfirskri stemningu og yfirbragði en það kom skemmtilega á óvart hversu margar einstaklega góðar ljósmyndir var að finna í safninu. Þó er ekki um neina glansmynd að ræða heldur fá allar árstíðir og veðrabrigði að njóta sín eins og hin fræga Austfjarðaþoka sem og yfirþyrmandi vetrarmyrkrið.

Bókin er 84 blaðsíður og inniheldur 65 ljósmyndir eftir 38 ljósmyndara; áhugaljósmyndara, listamenn, bæði innfædda og þá sem stoppa stutt við í bland.

Sunnudaginn 23. mars verður haldið útgáfuhóf á hótel Öldunni á Seyðisfirði í tilefni þess að ljósmyndabókin „Albúm Seyðisfjörður“ er komin glóðvolg úr prentsmiðjunni. Í tengslum við útgáfuna hefur einnig verið prentuð póstkortasería með sex völdum myndum úr bókinni.