Teiknimyndasaga verður til

Opnar 5. nóvember kl. 16:00

Sýningin leiðir áhorfandann í gegnum það ferli sem á sér stað frá hugmynd að útgefinni teiknimyndasögubók.
Sveinn Snorri les upp úr nýútkominni ljóðabók sinni Hinum megin við sólsetrið á opnuninni.
Teiknimyndasagan Skuggi Rökkva og ljóðabókin Hinum megin við sólsetrið verða til sölu í Skaftfelli.

„Lost his mind, found his heart“

Haustið 2005 vaknaði ég um miðja nótt með hugmynd að sögu í kollinum. Ég ákvað, þó mig langaði mest til að halda áfram að sofa, að skrifa hugmyndina niður. Aðalsöguhetjan átti að heita Skuggar (síðar Rökkvi) og var hugmyndin á bak við nafnið sú að hann hefði ofurmannlegt vald yfir skuggum. Tveimur eða þremur vikum áður, hafði ég séð kvikmyndina „American Splendor“, sem fjallar um ævi bandaríska myndasagnahöfundarins Harvey Pekar. Í myndinni er sýnt hvernig hann býr til teiknimyndasögu með einföldum strikakallateikningum. Ég skrifaði textann að Skugga Rökkva fljótlega eftir að ég fékk hugmyndina að sögunni og varð stór hluti hans til á meðan ég gekk á hlaupabretti mér til heilsubótar. Ég hreinskrifaði textann og teiknaði síðan söguna upp með strikakallaaðferðinni. Allt ferlið tók sautján daga og var afraksturinn 775 myndir sem ég teiknaði á venjulegan A4 ljósritunarpappír. Ég fékk sömu ábendingu frá öllum sem fengu að sjá handritið, að ég ætti að skera vel niður. Megin vankanturinn var að ég bjó gjarnan til of margar myndir í kringum sömu senu. Ég lagaði þetta með því að sameina setningar og einfaldlega klippa myndir út úr sögunni.

Í september 2006 bað ég franskan teiknara, sem heitir Jean Antoine Posocco, að gera mér tilboð í teikningu sögunnar eftir að hafa fengið frá honum nokkrar myndir sem sýnishorn. Við náðum að semja um verkið og um svipað leyti lauk ég við að teikna söguna á karton í sama broti og bókin var prentuð í. Við Jean fórum saman í gegnum hverja einustu mynd og skárum niður enn frekar. Þetta var síðasta vinnslustigið á undan endanlegum teikningum Jeans og útkoman varð þessi fallega bók sem hér er til sýningar. Hún inniheldur 263 myndir og segir bara nokkuð vel þá sögu sem ég vildi koma á framfæri.

Sveinn Snorri er fæddur árið 1973. Hann hefur gefið út sjö ljóðabækur auk teiknimyndasögunnar Skuggi Rökkva. Ný ljóðabók eftir hann kom út sumarið 2011. Sveinn Snorri býr og starfar á Egilsstöðum.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *