Að kveðjast og heilsast – Tinna Guðmundsdóttir

3. júli – 16. ágúst, Gallerí Vesturveggur, Skaftfell Bistró.

Opnunartími: mið – sun kl. 12:00-17:00

Ljósmyndaserían Að kveðjast og heilsast er skrásetning á stuttu tímabili fjölskyldulífsins. Með tíu ára millibili eru kvenkyns fjölskyldumeðlimir listamannsins, móðir og þrjár systur, ljósmyndaðar með öllum þeim fjölskyldumeðlimum sem búa á heimilinu hverju sinni. Fjölskyldur eru síbreytilegar einingar og serían fangar þær breytingar sem eiga sér stað milli myndataka, einstaklingar og gæludýr bætast við hópinn og hverfa úr honum, samhliða fæðast börn og vaxa úr grasi.

Fyrsta ljósmyndatakan átti sér stað árið 1998 í svart hvítu, meðan listamaðurinn var ennþá í framhaldsskóla. Á þeim tíma bjuggu fjölskyldumeðlimir á þremur mismunandi stöðum: móðirin bjó með yngstu systurinni, miðsystirin bjó með maka og tveimur börnum, elsta systirin bjó með maka og einu barni.

Önnur ljósmyndatakan fór fram árið 2008: móðirin hafð flutt og byrjað að búa með maka, yngsta systirin hafði flutt og byrjað að búa með maka, miðsystirin bjó ein með tveimur börnum, elsta systirin bjó án maka með tveimur börnum.

Síðasta ljósmyndatakan fór fram 2018: móðirin býr ennþá á sama stað með maka, yngsta systirin hefur flutt og býr með nýjum maka og þremur börnum, miðsystirin hefur flutt og býr með nýjum maka og tveimur börnum, elsta barnið hefur flutt af heimilinu, elsta systirin býr á sama stað með tveimur börnum.

Tinna Guðmundsdóttir er listakona og menningarstýra. Hún útskrifaðist árið 2002 með BA úr Listaháskóla Íslands, fjöltæknideild, og kláraði MA í menningarstjórnum frá Bifröst 2008. Hún hefur sýnt í Nýlistasafninu, Klink & Bank, Kling & Bang, Skaftfelli og Verksmiðjunni á Hjalteyri. Tinna býr og starfar á Seyðisfirði.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *