Snjóform

Hreyfi- og hljóðmyndaverkið Snjóform er eitt sex verka úr myndröðinni Hreyfimyndir af landi og er unnið í samstarfi við Dag Kára Pétursson sem semur tónlistina. Flytjendur ásamt honum eru Orri Jónsson og Gyða Valtýsdóttir. Í apríl s.l. dvaldi Guðrún í gestaíbúðinni í Skaftfelli og tók þá videomyndir af hlíðum fjallanna á Seyðisfirði sem varpað er á vegg sýningarsalarins. Verkið er 2 mínútur að lengd og leika snjóformin í fjallshlíðum Seyðisfjarðar aðalhlutverkið og undir ómar tónlist Dags Kára. Í hinum enda salarins hanga tvö málverk af snjóformum í fjöllunum beint á móti hvort öðru.

Í myndlist sinni reynir Guðrún (fædd 1950) að feta einstigið milli natúralisma og abstraktlistar. Með myndröðinni Hreyfimyndir af landi þróar hún þessa sýn áfram og bætir nýjum þáttum við: hreyfingu og tónlist. Guðrún Kristjánsdóttir hefur um langa hríð notað eyðilega fjallanáttúru sem grundvöll fyrir vangaveltur sínar um hina formrænu þætti málverksins. Hinn stórbrotni formheimur fjallanna er krufinn til mergjar á yfirvegaðan hátt. Í eldri verkum sínum leitaðist hún við skera burt ónauðsynleg smáatriði, þannig að eftir stóð einföld og sterk formgerð. Lárétt, lagskipt form í dempuðum litaskala gefa mynd af tignarlegu fjalli við sjóndeildarhring í upphafinni fjarlægð. Stærð verkanna eða öllu heldur hið langa form þeirra undirstrikar víðáttu landsins.
Í öðrum verkum þrengir listakonan sjónarhorn sitt og tekst á við nálægð fjallsins, fjallshlíðina. Spennan á milli nálægðar og fjarlægðar – fjallshlíðarinnar og fjallsins – er undirliggjandi grunntónn í verkum Guðrúnar. Í nálægðinni býr endurminningin um fjarlægðina, fjallshlíðin er án upphafs og endis. Vor í grýttu fjalli, hvítir snjóskaflar liggja á dreif í dökkri hlíðinni. Hvít form snævarins í kviku og spenntu sambandi við dökkan svörð fjallsins. Í nýjustu verkum listakonunnar kveður við nýjan tón. Þoka læðist um fjallið, formin missa skerpuna, birtan er margræð og stemning dulúðar ríkir. Þetta ferli skýrir listakonan nánar í myndbandsverkinu „Þoka“ sem er óður til hins kvika og síbreytilega augnabliks. Hin lifandi náttúra er aldrei í kyrrstöðu, umbreyting er eðli hennar. Hvert andartak er einstakt – háð duttlungum tímans, árstíðanna, veðursins og birtunnar.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *