Skaftfell hefur gefið út sérstakt fjölfeldi til að fagna 20 ára afmæli miðstöðvarinnar og standa að fjársöfnun fyrir starfsemina. Listamennirnir sem að útgáfunni koma eru: Silvia Bächli & Eric Hattan (Sviss), Margrét H. Blöndal, Ragnar Kjartansson og Roman Signer (Sviss).
Listamennirnir eiga það sameiginlegt að tengjast Seyðisfirði og Skaftfelli á einn eða annan hátt. Silvia Bächli & Eric Hattan bjuggu á Seyðisfirði í fjóra mánuði vorið 2008 og á meðan á dvöl þeirra stóð vann Silvia að einkasýningu sinni fyrir Feneyjartvíæringinn 2009 þar sem hún sýndi fyrir hönd Sviss; síðasta haust gerði Margrét H. Blöndal innsetninguna pollur – spegill inni í sýningarsalnum; Ragnar Kjartansson tók m.a. þátt í sýningunni Samkoma handan Norðanvindsins árið 2016; Roman Signer hefur heimsótt Seyðisfjörð reglulega og sýndi í Skaftfelli 2010.
Prentuð voru fjölfeldi í takmörkuðu upplagi fyrir Skaftfell, sem er selt hvert fyrir sig eða saman í möppu. Listamennirnir fá allir bestu og innilegustu þakkir fyrir þessa veglegu gjöf sem mun gera Skaftfelli kleift að safna fé til að styðja við viðamikla dagskrá, gestavinnustofur og fræðslu í tengslum við sýningarýmið.
[box type=“note“]Fyrir nánari upplýsingar hafið samband við skaftfell@archive.skaftfell.is[/box]