Staður til að vera á – Gudrun Westerlund

Sænska listakonan, Gudrun Westerlund, sem dvelur nú um þessar mundir í gestavinnustofu Skaftfells kynnir nýjustu verk sín með pop-up vídeó sýningu og listamannaspjalli í sýningarsal Skaftfells sem er annars lokaður um þessar mundir vegna Covid-19. Vídeóið verður sett inn á Instagram og Facebook síðu Skaftfells.

https://www.facebook.com/watch/?v=926205317831042

Gudrun Westerlund er myndlistakona sem býr og starfar í Uppsölum í Svíþjóð. Hún er fyrst of fremst málari en vinnur líka með landslagslist og annars konar listatengd verkefni. Hún blandar saman hlutbundinni myndlist og frásagnarlist á óhlutbundinn hátt. Á Íslandi hefur Gudrun unnið með blek og vatnsliti og jafnvel gert tilraunir í landslagslist með snjó og ís. Gudrun er mjög áhugasöm um náttúru og landslag sem er alltaf til staðar í list hennar enda stór hluti af hennar nánasta umhverfi þar sem hún ólst upp í norðurhluta Svíþjóðar umkringd vötnum, fjöllum og skóglendi. Andstæður milli náttúru og siðmenningar vekja áhuga hennar.

Gudrun dvaldi sem gestalistamaður á Skriðuklaustri í mars síðastliðnum en hefur dvalið í Skaftfelli frá því í byrjun Apríl. Þessir tveir staðir á Austurlandi hafa vakið hjá henni innblástur til að halda áfram að kynnast stöðum með því að fara í göngutúra þar sem hún virðir fyrir sér umhverfið, tekur ljósmyndir, skissar, hugsar, dregur upp mynd af landslaginu, fyrst á raunsannan hátt og svo með því að blanda upplifun sína og hugmyndum saman við það sem hún sér.

Gudrun Westerlund hefur oftast sýnt verk sín í Svíþjóð en einnig í Noregi, Letlandi, Finnlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Japan og Kína og tók hún þátt í hópsýningu í Norræna húsinu í Reykjavík 2017. Hún hlaut nýverið styrk til tveggja ára frá Swedish National Fund for the Art (Konstnärsnämnden).

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *