Home » 2010

Listamannaspjall #2 og opnun sýninga í­ Skaftfelli

Föstudaginn 8. október kl. 17:00 verður haldið listamannaspjall í aðalsal Skaftfells þar sem gestalistamenn Skaftfells og Skriðuklausturs fjalla um verk sín og vinnuaðferðir í máli og myndum.

Jafnframt opna tvær nýjar sýningar, á Vesturveggnum í Bistrói Skaftfells og í Bókabúðinni – verkefnarými.

Listamannaspjallið er öllum opið og fer fram á ensku.

Pappies
Ute Kledt
08.10.10 – 07.11.10
Vesturveggurinn

Beyond the walls
Lina Jaros
08.10.10 – 07.11.10
Bókabúðin – verkefnarými

Ute Kledt, f. 1963 í Þýskalandi býr og starfar í Konstanz, Þýskalandi. Hún lærði hönnun við háskólann í Konstanz og hefur frá árinu 1994 unnið sem hönnuður, málari og ljósmyndari. Hún hefur unnið sem nemi í málun og grafískri hönnun hjá ýmsum listamönnum og sýnt víða í Þýskalandi, Sviss og Austurríki.

Á sýningunni á Vesturveggnum í Skaftfelli má líta portret málverk unnin á pappadiska. Ute Kledt líkir myndum sínum við polaroid myndir eða einskonar skyndimálverk. Sýndar saman minna portretin á einskonar bútasaum þar sem kynslóðirnar mynda heild, teppi samsett af kynlegum kvistum. Safnið stendur nú í 250 myndum og stækkar stöðugt.

Ute Kledt er gestalistamaður í Skaftfelli í október.

www.annaloog.de

Lina Jaros, f. 1981 í Svíðjóð, býr og starfar í Stokkhólmi. Hún lauk námi frá Konunglega listaháskólanum í Stokkhólmi 2009. Með ljósmyndavélina að vopni kannar Lina Jaros sálfræði hins óræða eða óljósa, hún stefnir saman manngerðum hlutum og náttúrulegum í uppstillingum sem svo verða að ljósmynd þar sem mörk  innra og ytra umhverfis renna saman.

Á sýningunni í Bókabúðinni má líta ljósmyndir þar sem manngert umhverfi og náttúra renna saman á einstaklega fallegan og oft fyndinn hátt.

Lina Jaros er gestalistamaður Skaftfells í Járnhúsinu í september og október.

www.linajaros.com

Honey Biba Beckerlee, f. 1978 vinnur með myndbandalist, gerninga og innsetningar. Hún er með MFA gráðu í myndlist frá Konunglegu dönsku listaakademíunni og MA gráðu í listfræði frá Goldsmiths Háskólanum í London.

Honey Biba er gestalistamaður á Skriðuklaustri í október og nóvember.