Home » 2011

Listamannaspjall #5

Mánudaginn 18. apríl kl. 17:00 munu listamennirnir Kate Woodcroft og Catherine Sagin, Henriikka Härkönen og Tom Backe Rasmussen opna sýningar á verkum sem þau hafa unnið í vinnustofum Skaftfells á undanförnum mánuðum. Kate Woodcroft, Catherine Sagin og Tom Backe Rasmussen munu einnig sýna myndir af verkum sýnum og segja fá vinnuaðferðum sínum.

Um listamennina:

Kate Woodcroft & Catherine Sagin
Listamannahópurinn Catherin Sagin, stofnaður 2008, byggist á samvinnu listamannanna Kate Woodcroft og Catherine Sagin. Nafngiftin var ákvörðuð árið 2010 með skylminga gerningi þar sem listamennirnir tveir tókust á í tíu mínútur. Sigurvegarinn tryggði sér nafngift samvinnunnar næsta árið. Catherine sigraði 10-8.
Kate og Catherine hafa starfað saman síðan árið 2008, þær eru búsettar í Brisbane, Ástralíu. Þær eru báðar að vinna að mastersgráðu í myndlist frá Queensland University of Technology. Árið 2010 var þeim boðið að taka þátt í samsýningu ungra listamanna sem taldir eru í fremstu röð sinnar kynnslóðar í Queensland. Þær hafa sýnt víða um Ástralíu og eru einnig í hópi stofnenda listamannarekna rýmisins No Frills*. Á undan dvöl þeirra á Íslandi voru þær gestalistamenn í Art space Sydney.

Henriikka Härkönen
Henriikka Härkönen er finnskur listamaður sem fæst við textagerð, gerninga og innsetningar. Henriikka nam við Listaháskólann í Helsinki, Finnlandi og við Gerrit Rietveld Akademíuna í Amsterdam, Hollandi. Síðustu ár hefur Henriikka sýnt verk sín víða, jafnt á einkasýningum sem og á fjölmörgum samsýningum í Finnlandi og Hollandi.

Tom Backe Rasmussen
Tom Backe Rasmussen er fæddur í Svendborg, Danmörku. Hann stundaði listnám við listaháskólana í Amsterdam, Osló og Kaupmannahöfn. Tom Backe Rasmussen vinnur í blandaða miðla, til að mynda innsetningar, skúlptúr, vídeó, gerninga og ljósmyndun. Sem stendur einbeitir hann sér að málverki. Hann sækir innblástur víða, jafnt í heim staðreyndanna sem og heim hins óraunverulega eða ljóðræna. Skýrskotanir í samtímann, jafn á almennum sem og persónulegum nótum eru undirliggjandi í verkum hans en þannig leitast hann við að nálgast veruleika mannlegrar tilvistar.