Home » 2007

LISTSÝNING

11 ágú 2007 – 11 nóv 2007

Aðalsýningarsalur

Erla Þórarinsdóttir
“Sameign; opinber rými frá nýlendu- og sjálfstæðistíma”
Verkið samanstendur af 6 málverkum af grunnflötum opinberra bygginga í Reykjavík, máluð í skala 1:50. Hegningarhúsið, Alþingishúsið, Hnitbjörg, Kristskirkja, Háskólinn og Hallgrímskirkja eru sameignleg rými, viðmið okkar á önnur rými, hegðun okkar, verðmætamat og sjálfsímynd.

Hulda Hákon
„MUNASKRÁ“
Allt verkið eru  350 spjöld þar sem á eru letraðar innihaldslýsingar á 350 kössum sem eru í geymslum Reykjavíkurborgar.  Þar eru komnir kassarnir sem starfsmenn borgarinnar notuðu þegar vinnustofa Jóhannesar  Sveinssonar Kjarval var tæmd í lok sjöunda áratugarins. Hér er eingöngu komin skráin yfir munina sem voru á vinnustofunni, ekki bækur og listaverk. Munaskráin gengur á vissan hátt nálægt gömlum manni.  Flestir skilja eftir sig muni, en sjaldgæft er að þeir séu skráðir ítarlega. Hverju er fólk yfirleitt að halda til haga? Teikningum? Kjálkabeini úr kind? Tréhælum og laufabrauði? Fálkaorðunni? Vegna stöðu Kjarvals hjá Íslensku þjóðinni má með sanni færa rök fyrir því að munir sem voru í eigu hans öðlist æðri sess.  Kannski eitthvað
samsvarandi munum helgra manna.

Jón Óskar
“Án titils”
Með teikningunum tínir Jón Óskar saman í flókinn myndheim, iðandi  af tilvísunum í listasöguna, samfélagssöguna og sögu Jóns Óskars sjálfs og hans kynslóðar. Yfirbragð verkanna er því kannski torrætt  en um leið kunnuglegt því þar er skráð í fljótaskrift frásögn okkar flestra sem lifað höfum sömu tíma og Jón hér uppi á Íslandi og í  nálægum löndum. Saga Jóns liggur um New York inn í myndlistina en hann hefur líka unnið alla tíð að myndmótun í víðara samhengi í  hönnun dagblaða og tímarita og síðar netefnis. Hér beitir hann öllum aðferðum saman til að teikna upp veröldina útfrá sjónarhorni  sem er í senn almennt og persónulegt því vinna hans og forvitni hafa opnað Jóni ýmsa sýn og þjálfað hann í þeirri list að tengja ólíkar nálganir og miðla í mynd og texta. Á ferli sínum hefur Jón haldið myndlistinni nokkuð utan við önnur störf sín en oft hefur þó  opnast á milli og Jón nýtt sér efni úr hönnunarvinnu sinni og myndskreytingum til að vinna í myndlistarsýningu.

Steingrímur Eyfjörð
“Einar 1 til Einar 2”
Verkið er útlegging á tveimur ljóðum eftir Einar Má Guðmundsson

Listamennirnir byrjuð öll feril sinn í lok sjöunda og byrjun áttunda áratugarins. Þau hafa unnið stöðug að list sinni og haldið sýningar síðan þá.  Verk þeirra eru í eigu opinberra safna og einkaaðila á Íslandi og í öðrum löndum.