Nýtt vegglistaverk á Seyðisfirði eftir Anna Vaivare

Norðurgata 7, Seyðisfjörður

Gestalistamaðurinn Anna Vaivare hefur verið mjög afkastamikil við dvöl sína í gestavinnustofu Skaftfells og hefur nú lokið við nýjasta veggmálverkið sitt á Norðurgötu 7 hér á Seyðisfirði. Við hvetjum alla áhugasama að kíkja á þessa fallegu og skemmtilegu breytingu á húsinu við Norðurgötu 7, eða “Magasín” eins og húsið hefur verið kallað. Húsið var eitt sinn skóbúð – sögulegt smáatriði sem má finna í veggmyndinni.

Afhjúpun verksins og kveðjupartý fyrir Önnu fer fram laugardaginn 5. júní klukkan 20:00 í garðinum á Norðurgötu 7 og eru allir velkomnir!

Anna Vaivare er frá Letlandi og vinnur fyrst og fremst með myndskreyti og annars konar myndasöguform. Hún hóf feril sinn sem arkitekt eftir að hafa lokið námi frá Riga Technical University Faculty of Architecture and Urban Planning. Eftir að hafa gefið út þó nokkrar myndasögur og myndskreytt fimm barnabækur settist hún á skólabekk við Art Academy of Latvia Printmaking department og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu.

Anna dvaldi í gestavinnustofu Skaftfells í apríl og maí, með stuðning frá Norrænu menningargáttinni (Nordic-Baltic Mobility Programme, Nordic Culture Point).