Skeyti til náttúrunnar

Listfræðsluverkefni Skaftfells haustið 2021, Skeyti til náttúrunnar, var þróað af myndlistarmanninum Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur í tengslum við sýninguna Slóð sem hún og myndlistarmaðurinn Karlotta Blöndal opnuðu í sýningarsal Skaftfells 25. september sama ár. Markmið verkefnisins var annars vegar að kynna Morse-kóða fyrir nemendum og segja frá notkun hans á ritsímastöð Seyðisfjarðar í grófum dráttum. Hins vegar að sýna hvernig nota má skapandi hugsun með þekktum kerfum eins og Morse og setja í sjónrænt samhengi og víkka þannig út samhengi hluta. Þessir þættir voru svo fléttaðir inn í umhverfis- og náttúruvernd og nemendur vaktir til umhugsunar um samband sitt við náttúruna og nærumhverfi. Með verkefninu var ólíkum hlutum skeytt saman þar sem tækni, staðbundin saga og umhverfi fléttuðust saman við hefð úr framandi menningu. „Köll“ og skilaboð voru send á milli heima, í gegnum tíma, rúm og miðla og mynduðu óræð samtöl á milli manns og náttúru.

Í verkefninu var notast við aðferð tíbeskra bænafána þar sem bænir og óskir eru prentaðir á litríka bómullarfána og þeir svo strengdir á milli trjáa í fjallshlíðum Tíbet þaðan sem bænirnar berast með vindinum. Notaðir voru hvítir bómullarfánar til að mynda Morse-kóðann og þannig einfaldar setningar stafaðar. Nemendum var skipt upp í hópa sem komu sér saman um hvaða skilaboð þau vildu senda en hver og einn nemandi fékk að skreyta sinn staf (fánana sem mynduðu stafinn) að vild.  Að lokum voru allir fánarnir settir í rétta röð og færðir upp á band og festir á. Ef tími vannst fóru nemendur út með fánalengjuna og til að mynda.