Home » 2005

UMBROT

15 maí 2005 – 26 jún 2005
Aðalsýningarsalur

UMBROT
Blákaldar staðreyndir um heitan jökul

Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu. Eldvirkni undir jöklum er hvergi meiri en á Íslandi og hér er hún mest undir Vatnajökli. Þannig er Vatnajökull kaldasti staður á Íslandi en líka heitasti jökull í heimi. Þegar gengið er fram á sjóðandi leirhveri á miðjum jökli er það snerting við ósnortna sjálfstæða veröld þar sem fortíð, nútíð og framtíð blandast saman í eina ólgandi iðu. Þannig er heimsókn á hverasvæði Vatnajökuls lík því að eiga stefnumót við sköpunina sjálfa. Ólgan og tilbrigðin í leirhverunum eru eins mismunandi og hjá mannfólkinu. Fyrst dregst maður að mestu óhemjunum, hverunum sem hamast og skvetta í allar áttir, aðrir eru lengst af rólegir en æsa sig öðru hverju. Að lokum dregst maður að þeim sem sjást ekki fyrr en maður hefur aðlagast staðnum, þeim sem láta minnst fara fyrir sér, eru eins og í leyni hér og þar en ná að vekja undrun og kátínu, þannig opnaðist einn í fótspori mínu. Um stund rennur allt saman í eitt og heimurinn endar við sjóndeildarhring.  Lengst af virðist allt með kyrrum kjörum. En krafturinn býr undir niðri og spennan hleðst upp. Að lokum losnar eldurinn úr læðingi, í senn afl sköpunar og eyðingar. Ekkert fær stöðvað eldgosið. Við getum aðeins fylgst með. Engin tækni eða tól mannsins geta beislað þennan frumkraft. En að lokum fjarar gosið út. Nýtt land hefur orðið til – heljarmikil gjá hefur myndast í jökulinn og í henni nýr gígur. Þá taka við önnur öfl. Þau vinna hægar en hafa líka tímann fyrir sér. Jökullinn kælir nýja fjallið, ísinn skríður hægt og bítandi að og umlykur að lokum hina nýju sköpun. En við það verður til nýtt landslag, landslag jökulsins, hvítar ávalar breiður. Hringrás náttúrunnar.

Sýninginn er hluti af listahátíð Reykjavíkur 2005. Sýningarstjórar eru Jessica Morgan og Björn Roth.

Anna Líndal útskrifaðist frá Myndlista og Handíðaskóla Íslands árið 1995 og lauk framhaldsnámi frá The Slade School of Fine Art í London árið 1990. Hún hefur haldið einkasýningar bæði hér heima og í Þýskalandi, Svíþjóð, Noregi, Sviss og Ítalíu. Auk fjölda innlendra og erlendra samsýninga tók Anna þátt í Istanbúl tvíæringnum 1997 og Kwangju Biennalnum í S- Kóreu Kóreu 2000. Anna gegnir prófessorsstöðu við Listaháskóla Íslands.