Ný barnamenningarhátíð – BRAS

Haldin verður barnamenningarhátíð í fyrsta skipti á Austurlandi núna í september. Hátíðin hefur fengið nafnið BRAS og mun fara fram í menningarmiðstöðvunum á Austurlandi.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi ákvað að leggja fjármagn í barnamenningarhátíð í gegnum fjármagn frá Sóknaráætlun Austurlands. Austurbrú hefur umsjón með verkefninu í samstarfi við Skólaskrifstofu Austurlands og menningarmiðstöðvarnar á Austurlandi; Skaftfell, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs/Sláturhúsið og Tónlistamiðstöð Austurlands.

Mikil áhersla hefur verið á auka listir og menningu fyrir börn síðustu ár. Í kjölfar menningarstefnu ríkisins hefur m.a. orðið til verkefnið List fyrir alla.  Barnamenningarhátíð er haldin árlega í Reykjavík með miklum ágætum og fleiri sveitarfélög hafa fylgt í kjölfarið. BRAS er fyrsta barnamenningarhátíð sem haldin verður í heilum landshluta og vonast skipuleggjendur til að þátttaka verði góð og hátíðin sé komin til að vera og vaxi á næstu árum, bæði með þátttöku fleiri stofnanna sem og almennings.

Opnunarhátíð þar sem öllum börnum á Austurlandi verður boðið, verður haldin á þrem stöðum á Austurlandi laugardaginn 8. september. Nánari auglýsingar verða í fjölmiðlum á Austurlandi auk þess sem heimasíðan www.bras.is opnar á næstu dögum.

Í þeim þjóðfélagsbreytingum sem nú eiga sér stað með fjórðu iðnbyltingunni er mjög mikilvægt að börn læri skapandi hugsun og kynnist listum og menningu út frá sem víðustu sjónarhorni. BRAS á vonandi eftir að auka möguleika barna til listsköpunar og uppgötvunar á eigin listrænum hæfileikum og til þess auka getu barna og ungmenna til að takast á við breytingar á vinnumarkaði.

Ljósmynd: Rafael Vazques Toledo

large_bras-1