Margrét H. Blöndal

Einkasýning Margrétar H. Blöndal, pollur – spegill, stendur yfir frá 7. okt – 26. nóv.

Ég var á ferð fótgangandi, áverkar á stígum mynduðu dældir fyrir vatn sem hefur fossað frá himninum síðustu daga.  Spegill spegill herm þú mér.  Sumir eru drullug díki, aðrir grárri og svo getur glitt í tæran botninn.  Pollur er djúpur, gljúpur sem gleypir og fær eitthvað til að hverfa.  Spegill flatur – tví- og þrívítt á víxl – samt getur maður horft inn í óendanleikann – eða ekki.  Pollur er hjúpur um áverka, hylur eða undirstrikar – allt eftir því hvað þú vilt og vilt. Pollur er dulargervi – spegill – þú felur þig eða framkallast í eigin ímynd.   

Stundum er ég snekkja – stútfull af káetum í ýmsum stærðum. Kýraugun stöðugt á höttum eftir vísbendingum. Hoppa og skoppa yfir heljarbrú, opna út á dekk, ryð niður veggjum og færi til vistarverur. Hér er hægt að dansa og hér er möguleiki að vinna aflann; ein ég eima og flokka, flaka líka og stokka. 

Til sýnis eru sex ný verk sem öll urðu til nokkrum dögum fyrir opnun. Í vinnuferlinu byrjaði Margrét á því að innbyrða sýningarsalinn, lögun hans og andrúmsloft. Í kjölfarið raðaði hún og stillti handvöldum og umbreyttum efnisföngum, snúrum, plasti, tróði, prikum, o.s.frv. víðsvegar um salinn. Hárfínar samsetningar mynda þannig saman ljóðræna og fínstillta innsetningu í rýmið. Hið einfalda og látlausa verður að einhverju forvitnilegu sem býr þó yfir kunnugleika, sem kveikir ný hugsanatengsl hjá áhorfendum og jafnvel veitir þeim innblástur inn í aðvífandi vetur.

Á vegferð sinni er Margrét árvökul en um leið rænulaust reiðubúin að viða að sér efni til úrvinnslu og nýtingar í óorðin verk og á birgðir frá öllum heimshornum. Hún tók úrval með sér til Seyðisfjarðar auk þess sem hún fór í leiðangra í firðinum, í heimahús með leyfi, geymslur og skemmur í efnisleit.

Margrét H. Blöndal býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk námi frá fjöltæknideild Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1993 og lauk síðar meistaraprófi frá Rutgers háskólanum í New Jersey. Af nýlegum sýningum hennar má nefna einkasýningu hjá Galerie Thomas Fischer, Berlín (2017), i8 Gallery, Reykjavík (2016); Felldur, Harbinger, Reykjavík (2015); Listasafn Reykjavíkur (2014); og Fort Worth Contemporary Arts, USA (2009). Verk hennar hafa verið sýnd á fjölda samsýninga, meðal annarra: Entangled: Material and Making, Turner Contemporary, Margate (2017),  6th Momentum, Moss, Noregi (2011); Manifesta 7, Trentino, Ítalíu (2008) og Kunstverein Baselland, Sviss (2006). Árið 2009 var hún residensíulistamaður hjá Laurenz Haus Stiftung, Basel. Margrét hefur allan sinn feril stundað kennslu.

[box]Sýningarsalurinn er opinn á sama tíma og Bistróið.0[/box]

MyndlistarsjodurSL_austurland

/www/wp content/uploads/2017/03/afmaelislogo 60 ara svn