Amanda Riffo: TEYGJANLEGT ÁLAG

09.11.2019 — 05.01.2020

Opnun: Laugardaginn 9. nóvember 2019, kl. 16:00-18:00

Leiðsögn með listamanninum sunnudaginn 10. nóvember, kl. 14:00-15:00

Sýningin Amanda Riffo: TEYGJANLEGT ÁLAG er hluti af stefnu Skaftfells að sýna verk yngri listamanna sem eru búsettir á Íslandi og staddir á mikilvægum tímamótum í ferli sínum. Amanda Riffo er frönsk listakona sem flutti til Íslands árið 2012 en dvaldi þar áður í gestavinnustofu Skaftfells árið 2008.

Amanda Riffo viðurkennir að hún sé haldin sjónkvilla og að þessi líkamlegi annmarki hafi veitt henni innblástur megnið af ferli sínum sem listamaður. Sjónin er undirstaða sjónlistar þar sem hinn hlutlægi veruleiki og huglæga upplifun mætast. Hvernig við sjáum er mjög persónubundið. Amanda notar þessa mótsögn endurtekið í verkum sínum með því að blanda saman skírskotunum og aðferðum frá mismunandi sviðum t.d. niðurstöður frá rannsóknarstofum sem hún leggur ofan á og blandar við hefðbundnar teikningar; raunvísindaleg nálgun á hluti sem notaðir eru til spádóma; eða blandar saman tilbúna listmuni við raunverulegar aðstæður. Þessi nálgun tengist titlinum TEYGJANLEGT ÁLAG sem er fenginn úr lýsingu á fyrirbærinu þegar að náttúrulegt ástand hlutar er umbreytt undir þrýstingi eða álagi.

Útgangspunktur þessarar sýningar er sjónræn upplifun Amöndu þar sem hún gengst við skeikulleika hennar, óvissu og skekkju. Þegar við göngum um sýningarrýmið breytist ásýnd okkar á verkunum. Hér er ekki eingöngu um sjónhverfingu að ræða heldur persónubundið samspil hvers og eins okkar við hið hlutlæga. Annars staðar í rýminu hefur Amanda skannað spegla og úr verður eins konar ljóðræn takmörkun spegilsins sem er, undir venjulegum kringumstæðum, áhald fyrir hið fullkomna endurvarp. Útkoman er svarthol sem er endalaus lúppa spegilmynda og upplýsinga. Þessi endanleiki myndar sett fram með ofgnótt upplýsinga er einnig hægt að líta á sem félagslega og menningarlega hefð svarta spegilsins sem tengist svartagaldri eða hinu yfirskilvitilega. Í þeim tilvikum er spegillinn ekki aðeins tákn um heiminn heldur aðferð við að komast handan hins efnislega heims.

Með innsetningu sinni í Skaftfelli hefur Amanda gert upplifun áhforfandans flóknari og skapað vettvang fyrir tilraunir á gagnvirkni hins sálræna og líkamlega rýmis. Hún vonast til að „afhjúpa jaðarásýnd okkar á raunveruleikanum þegar hið efnislega er undir einhvers konar ósýnilegu álagi.“

Listferill

Amanda Riffo nam við the National School of fine Arts í París þar sem hún útskrifaðist með MFA gráðu árið 2002. Hún hefur búið og starfað í Reykjavík frá 2012. Verk hennar hafa verið til sýnis í Evrópu, Japan og Chile síðan 2002. Hún hefur tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum listkaupstefnum en einnig samtímalistkaupstefnum um teikningar (Volta Basel (CH); FIAC Paris (FR)) og var þá fulltrúi fyrir Gallery Schirman and De Beaucé í París á tímabilinu 2005-2010.

EYE Film Institute í Hollandi hefur safnð verkum frá henni um árabil. Í nóvember 2018 hélt hún sína fyrstu einkasýningu á Íslandi, CAVERN í listamannarekna rýminu OPEN. Árið 2019 tók Amanda þátt í Sequences hátíðinni í Reykjavík og sama ár tók hún þátt í samsýningunni OUTLINE á Maki Fine Arts Gallery í Tokyo 2019. Frá 2005 til 2008 starfaði Amanda sem aðstoðarkona á vinnustofu fyrir mexíkanska listamanninn Gabriel Orozco. Nýverið hlaut hún styrk frá Institut Français til að gera tvö gestavinnustofutengd verkefni í Tokyo (2012 og 2013) þar sem hún sýndi í Youkobo Art Space og hlaut umboðslaun fyrir flugeldaverkefni fyrir Franska sendiráðið í Tokyo. Hún dvaldi nýverið í gestavinnustofu Boghossian Foundation í Brussel, Belgíu. Amanda kom fyrst til Íslands árið 2007 og dvaldi í gestavinnustofu SÍM og sneri svo aftur ári seinna og dvaldi í gestavinnustofu Skaftfells. Hún hefur verið meðlimur SÍM síðan 2015 og sat í stjórn NÝLÓ frá 2015 – 2017.