Auglýst eftir umsóknum fyrir gestavinnustofudvöl 2015

Umsóknarfrestur til 1. september 2014

Umgjörðin
Gestavinnustofum Skaftfells er ætlað að stuðla að samfélagi listamanna og heimamanna, veita listamönnum rými til vaxtar og sköpunar í litlu samfélagi með óteljandi möguleikum og búa í haginn fyrir skapandi samræður milli listarinnar og hversdagsins.

Gestavinnustofurnar eru fyrst og fremst fyrir myndlistarmenn, en umsóknir frá listamönnum sem vinna á milli miðla eða í faggreinum er tengjast myndlist verða teknar til greina. Umsóknir frá hópum og fjölskyldum eru einnig vel séðar.

Dvalartími er frá einum upp í sex mánuði, en mælst er til að listamenn dvelji í um tvo mánuði. Einnig er hægt að sækja um skammtíma dvöl vegna rannsóknarvinnu.

Vinnustofur
Sjálfstæð dvöl í 1 – 6 mánuði
Rannsóknardvöl í hámark tvær vikur

Aðstaða & vettvangur
Listamenn í sjálfstæðri dvöl dveljast ýmist á Hóli eða í Norðurgötu, bæði húsin eru sjarmerandi gömul timburhús, búin öllum helstu nauðsynjum og með vinnuaðstöðu.

Listamenn í rannsóknardvöl fá úthlutað sér herbergi inn af hjarta Skaftfells, skrifstofunni á efstu hæð hússins. Þeir deila baðherbergi og eldunaraðstöðu með öðrum listamönnum og starfsfólki og hafa fullan aðgang að vinnuaðstöðu Skaftfells.

Gestalistamönnum Skaftfells bjóðast ýmsir kostir þegar kemur að því að kynna vinnu sína, setja upp sýningar, fremja gjörninga, leggjast í rannsóknir eða framleiða verk. Þar má helst nefna Bókabúðina – verkefnarými og prentverkstæðið á Tækniminjasafninu.

Forsendur og viðmið
Eftirfarandi forsendur eru hafðar til grundvallar á vali listamanna:

  • Gæði verka metin af innsendum gögnum.
  • Náms- og ferilskrá.
  • Staðfesting á fagmennsku, metin af innsendum gögnum.
  • Merki þess að dvöl í gestavinnustofu Skaftfells muni hafa gagnleg áhrif á listsköpun og þróunarferli  listamannsins.

Valnefnd sem samanstendur af aðilum úr myndlistarfaginu og menningargeiranum fer yfir og velur umsóknir. Mismunandi aðilar sitja í nefndinni árlega. Gestavinnustofum er úthlutað til listamanna út frá listrænum forsendum og gæðum verka, auk þess að viðfangsefni og verkefni samræmist starfsemi Skaftfells.

Umsóknarferli
Til að sækja um dvöl þarf að fylla úr rafrænt eyðublað sem er aðgengilegt á vefsíðu Skaftfells.

Dvalargjöld

  • Sjálfstæð dvöl í einkahúsi 550 EUR á mánuði
  • Sjálfstæð dvöl, húsi deilt með öðrum listamanni 360 EUR á mánuði

Staðfestingargjald, einn mánuður, greiðist við bókun.

  • Rannsóknardvöl 24 EUR á dag/150 EUR á viku